Með töluvert magn barnakláms í tölvunni

Haldi maðurinn skilorð þarf hann ekki að sitja af sér …
Haldi maðurinn skilorð þarf hann ekki að sitja af sér dóminn. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi í lok september karlmann fyrir kynferðisbrot með því að hafa í vörslu sinni töluvert magn bæði ljós- og kvikmynda sem sýna börn á klámfenginn og kynferðislegan hátt.

Hlaut maðurinn sex mánaða dóm fyrir brot sitt en er hann skilorðsbundinn til þriggja ára vegna óhóflegra tafa á rannsókn málsins.

Myndefnið sem um ræðir, 878 ljósmyndir og 113 kvikmyndir, fannst í tölvum á heimili mannsins í janúar árið 2021. Maðurinn, sem á að baki nokkurn sakaferil og hefur fengið dóm vegna sambærilegs máls, játaði strax brot sitt.

Engin haldbær skýring á töfum

Í dómnum segir að ekki sé hægt að líta fram hjá því að maðurinn hafi frá upphafi verið samstarfsfús, greint hreinskilnislega frá og veitt aðgang að húsnæði og tölvubúnaði án nokkurra undanbragða.

Af óútskýruðum ástæðum hafi hins vegar ekkert verið aðhafst í málinu eftir að rannsókn á öðru sakarefni var felld niður.

Engin haldbær skýring hafi fengist á óhæfilegum drætti málsins sem sé í andstöðu við lög um meðferð sakamála. Því sé óhjákvæmilegt að skilorðsbinda refsinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert