Of margir nota kennsluaðferðir sem litlu skila

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, og Jón Pétur Zimsen, …
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, og Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Samsett mynd/Colourbox/mbl.is/Eggert/Karítas

Allt of margir skólar nota kennsluaðferðir sem litlu skila og tími og fjármagn tapast.

Þetta sagði Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi skólastjóri, á Alþingi þar sem menntamálin eru nú til umræðu.

Jón Pétur sagði neyðarástand ríkja í skólamálum. 40% barna útskrifast úr grunnskóla án þess að hafa náð grunnfærni í lesskilningi og líðan barna er ekki góð.

Koma illa undirbúnir úr kennaranámi

TALIS-rannsóknin, stærsta alþjóðlega rannsóknin á kennurum, skólastjórnendum og kennsluháttum, sýnir að aðeins helmingur nýrra kennara á Íslandi telur að kennaramenntun þeirra hafi búið þá vel undir námsgreinarnar sem þeir kenna.

Hlutfallið lækkar um fimmtán prósentustig frá árinu 2018.

Í ræðunni lagði Jón Pétur fram átta aðgerðir í menntamálum. Sneru þær meðal annars að því að stytta kennaranámið úr fimm í þrjú ár, breyta inntaki þess og auka kröfurnar.

„Margföld aðsókn í námið eykur fjölda gæðaumsókna, námsárangur og líðan nemenda myndi batna verulega enda kennarinn langstærsta breytan hvað þetta varðar.“

Vill auka aga og breyta um einkunnakerfi

Þá lagði hann til að gera nýja aðalnámskrá og einkunnakerfi, auka aga innan skólasamfélaga, leggja fyrir samræmd próf úr öllu inntaki aðalnámskrár, stofna deildir fyrir börn með annað móðurmál en íslensku, taka þátt í TIMMS-rannsókninni, koma öllum starfsmönnum leikskóla á B2* stig í íslensku og nota kennslu sem skilar árangri.

Vildi hann fá að vita hvort ráðherra myndi nýta sér þessar aðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert