Óveðurský yfir íslenskri ferðaþjónustu

Daði Már svaraði fyrirspurn Sigmundar Davíðs.
Daði Már svaraði fyrirspurn Sigmundar Davíðs. mbl.is/Eyþór

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir óveðurský vera yfir ferðaþjónustunni. Hann segir ríkisstjórnina vinna að tillögum er varða gjaldtöku af ferðamönnum í sátt við ferðaþjónustuna.

Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Sigmundur beindi fyrirspurn sinni að skattahækkunum ríkisstjórnarinnar og óskaði svara á því hvort ráðherrann hygðist halda áfram áformum sínum um að hækka skatta og álögur á ferðaþjónustuna í ljósi breyttra aðstæðna, m.a. vegna gjaldþrots flugfélagsins Play.

„Hyggst ráðherrann í engu taka tillit til þessara breytinga og breyttra aðstæðna og milda höggið gagnvart ferðaþjónustunni?“ spurði Sigmundur.

Taka tillit til stöðunnar

Daði svaraði fyrirspurninni á þá leið að hægt væri að beita ríkisfjármálunum á tvo vegu til að styðja við vegferð Seðlabankans: annars vegar með því að draga úr þenslu og hins vegar með því að hækka skatta.

„Varðandi ferðaþjónustuna sérstaklega þá tek ég undir að það eru óveðursský í kringum hana. Ríkisstjórnin hefur verið að vinna að tillögum í sátt og samtali við ferðaþjónustuna um breytingu á gjaldtöku af ferðamönnum. Í þeirri vinnu er tekið tillit til hvernig þessi staða hefur þróast og við munum að sjálfsögðu taka tillit til hennar eins og hún þróast áfram,“ sagði Daði jafnframt.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Karítas

Alltaf sami söngurinn

„Þetta er alltaf sami söngurinn. Við erum að fylgjast með þessu og við munum taka tillit til hlutanna þegar þeir koma í ljós. Þeir eru að koma í ljós og ég er að spyrja um viðbrögð, ekki það hvort hæstvirtur ráðherra sé að fylgjast með,“ svaraði Sigmundur.

Þá óskaði Sigmundur einnig svara við því hvort það standi til af hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna beita sér fyrir því að Ísland komist að einhverju leyti „út úr þeim ógöngum sem við erum lent í með auknum kolefnissköttum Evrópusambandsins á samgöngur við landið, flug og siglingar.“

„Varðandi kolefnisgjöldin þá er það auðvitað þannig að Ísland sem þátttakandi í alþjóðlegum kerfum kemur til þess að gera vel út. Við verðum að átta okkur á því að þegar þessi gjöld eru lögð á og við veljum að taka þátt í kerfunum þá erum við að spila inn í þann styrkleika íslensks atvinnulífs að kolefnislosun hér er lítil,“ sagði Daði og hélt áfram:

„Þegar lögð eru kolefnisgjöld almennt, t.d. á orkuframleiðslu í heiminum, þá þýðir það að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja gagnvart samkeppnisaðilum erlendis batnar en versnar ekki. Við þurfum þess vegna að skoða þessi þessa hagsmuni í heild sinni og þeir sem þekkja vel til íslenska orkukerfisins vita að við eigum töluvert mikið inni og að hluti af því samkeppnisforskoti sem við höfum og ástæðan fyrir því að við erum enn þá að draga okkur iðnað að röðin af aðilum sem vilja koma til Íslands og hefja atvinnustarfsemi er löng, er einmitt sú að við höfum þarna til máls.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert