„Þetta er í rauninni ótrúlegur dagur til að fá ráðherra frá Palestínu í heimsókn hér til Íslands. Þetta er mjög stór stund fyrir Palestínumenn og heimsbyggðina alla. Ég tek undir það sem utanríkisráðherra Íslands hefur sagt hvað þetta varðar, þetta er stór stund, þetta er mikilvæg stund en það er enn þá mjög mikið í húfi.“
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er hún ávarpaði fjölmiðla í forsætisráðuneytinu að loknum hádegisfundi með Varsen Aghabekian, utanríkisráðherra Palestínu, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra.
Aghabekian er stödd hér á landi í boði utanríkisráðherra. Hún mun á morgun sækja árlega friðarráðstefnu Höfða friðarseturs þar sem hún mun vera með erindi.
Kristrún sagði að á fundinum hefði verið rætt í „talsverðum smáatriðum“ hvernig Ísland gæti lyft áfram friðarumleitunum á svæðinu með tilliti til tveggja ríkja lausnar milli Ísraels og Palestínu.
Ítrekaði Kristrún stuðning íslenskra stjórnvalda við tveggja ríkja lausn.

