„Hann fór út og átti að koma heim 9. október. Skömmu áður en flugið hans átti að fara fékk ég þau skilaboð að hann væri veikur og svo var lokað á mig á öllum samskiptamiðlum. Þá skildi ég hvað var að gerast.“
Þetta segir Ragnar Vilhelmsen Hafsteinsson í samtali við Morgunblaðið, fimmtugur Keflvíkingur búsettur í Noregi, faðir hins sextán ára gamla Adams sem hann eignaðist með slóvakískri konu sem búsett var um tíma á Íslandi þar sem þau kynntust á fyrsta áratug aldarinnar.
Ragnar og barnsmóðirin, sem nefnd verður hér sínu rétta fornafni, Jana, en ekki meira en svo, slitu sambandi sínu, háðu þunga forræðisdeilu fyrir héraðsdómi á Íslandi og komust að samkomulagi sem móðirin treysti sér ekki til að halda. Hún skilaði syninum, þá sex ára, ekki úr heimsókn hans til Slóvakíu í október 2015 eins og um var samið og það var 9. október, fyrir réttum tíu árum í dag, sem sú staðreynd vitraðist Ragnari að Adam væri ekki á leiðinni heim til Noregs.
Faðirinn íslenski tók þá til sinna ráða og féllst á að deila með Morgunblaðinu sögu af ævintýralegum leiðangri í för atvinnumanna sem hann kynntist í friðargæslu í Afganistan og skall hurð nærri hælum þegar nánast allt lögreglulið slóvakíska bæjarins Ivanka pri Dunaji veitti þriggja manna teymi eftirför á ofsahraða í átt að landamærum Ungverjalands þar sem hver mínúta skipti máli.
„Við skildum 15. júní 2012 á Íslandi og skömmu síðar tilkynnti hún mér að hún ætlaði með Adam til Slóvakíu,“ byrjar Ragnar frásögn sína, talandinn alvörugefinn og auðheyrt af raddblænum að langt er um liðið síðan Ragnar hefur talað um atburði haustsins 2015. Þetta viðtal er einfaldlega liður í því að loka málinu endanlega og halda áfram með líf þeirra feðga.
„Við ræddum þá um að hafa það fyrirkomulag sem kæmi drengnum sem best, hann yrði einhverja mánuði hjá henni og einhverja hjá mér. Svo þegar að skólagöngu kæmi sæjum við bara hvað hentaði best,“ rifjar Ragnar upp af sumrinu 2012.
Eftir að Adam fór með móður sinni til heimalands hennar þá um sumarið tók Ragnar fljótlega að gruna að maðkur væri í mysunni. Barnsmóðir hans gerðist stopul í svörum og áður en langt um leið barst tölvupóstur með afarkostum.
„Þar skrifaði hún mér að hún væri búin að ræða við alla hlutaðeigandi og segja þeim frá öllum hliðum málsins – sem var auðvitað bara hennar hlið – og mér var boðið að vera með Adam þrjár vikur á ári, þetta var bara „taktu þessu eða haltu kjafti“-tilboð og ég sagði auðvitað bara nei,“ segir Ragnar og þar með hófst forræðismál þeirra foreldranna fyrir íslenskum dómstólum.
„Besta leiðin fyrir mig til að vinna þetta var að draga þetta á langinn, sýna að ég væri betra foreldri en hún,“ segir Ragnar hreinskilnislega og náði að halda uppi málþófi sem enginn stjórnarandstöðuþingmaður íslenskur mun nokkurn tímann geta gumað af en hann tafði málið í tvö ár sem voru honum enda fjárhagslegur myllusteinn um háls.
„Ég þurfti að borga allt úr eigin vasa á meðan hún fékk allt frá ríkinu þar sem hún vann bara svarta vinnu og hafði nánast engar opinberar tekjur,“ segir faðirinn.
Í apríl 2014 var dómur upp kveðinn í héraðsdómi þar sem Ragnari var dæmt fullt forræði yfir syni sínum. Í fyrstu var ágætt samkomulag með þeim Jönu. Adam fór til Slóvakíu og heimsótti móður sína og þeir feðgar fluttu til Noregs þar sem Ragnari hafði boðist starf sem hann þáði.
„Ég gerði alltaf ráð fyrir að ef hún ætlaði að taka hann til sín [í trássi við dóm héraðsdóms] myndi það gerast þetta tímabil eða sumarið áður. Eftir tvo mánuði í Slóvakíu seinna sumarið kom hann heim og þá hélt ég að ég gæti andað rólega,“ rifjar Ragnar upp. Seinna sumarið sem hér er nefnt er sumarið 2015 og er leið á haustið urðu vatnaskil.
„Hún hefur samband og spyr mig hvort hún megi fá hann til sín í haustfríinu og ég samþykki það,“ segir Ragnar og þar með erum við komin að upphafsorðum þessa viðtals, 9. október fyrir réttum tíu árum. „Tveimur dögum seinna er hann byrjaður í skóla úti,“ segir Ragnar og geðshræring löngu liðins tíma gárar yfirborð frásagnarinnar.
Þar með var hann staddur einn í Rogaland-fylki á vesturströnd Noregs og allar bjargir bannaðar auk þess sem hann var að hefja störf hjá nýjum vinnuveitanda, olíuiðnaðarþjónustuaðilanum NorSea A/S. „Ég vissi alveg hvað klukkan sló, ég þekkti fólk í Slóvakíu sem gat komist að því fyrir mig hvar hann væri sem var í bænum þar sem mamma hennar Jönu bjó,“ segir hann frá.
Allar dyr reyndust lokaðar í Noregi. Ragnar fór til lögreglunnar til að tilkynna um barnsrán „og þar var einhver kona sem tók skýrslu af mér. Hún hló að mér,“ segir hann en verst sviðu þó svör íslenska utanríkisráðuneytisins þrátt fyrir að þeir Adam væru báðir íslenskir ríkisborgarar. „Ég bað ráðuneytið að taka afstöðu til málsins, eins og það gerði til að mynda í máli Sophiu Hansen á sínum tíma, en fékk bara nei og mér þykir skömm að því,“ segir Ragnar hispurslaust. Hins vegar kann hann starfsfólki íslenska sendiráðsins í Ósló hinar bestu þakkir þar sem hann fékk svo ríkulegan stuðning að annars eins hefði hann aldrei vænst.
Örvæntingin mátti ekki ná tökunum, það mátti alls ekki gerast. Nú gilti það eitt að anda djúpt og halda áfram. Ragnar ræddi við íslenska fjölmiðla og náði athygli þeirra, fór til dæmis í nokkur viðtöl í Bítinu á Bylgjunni og hjá DV samhliða því sem hann setti upp söfnunarsíðu á Facebook.
Hjálparstofnun kirkjunnar í Noregi gat látið honum nokkur þúsund krónur í té og Íslendingar, sem alltaf standa saman á ögurstundu, skutu saman um 450.000 krónum sem Ragnar er ákaflega þakklátur fyrir. „Því gleymi ég ekki og ég vil ekki hljóma vanþakklátur þegar ég segi að sú upphæð var samt dropi í hafið, kostnaðurinn við það sem ég gerði var hátt í tvær milljónir,“ segir hann.
Og hvað gerði Ragnar?
Hann starfaði á árum áður sem dyravörður, lögregluþjónn og slökkviliðsmaður, svo eitthvað sé nefnt, og þegar menn eru komnir í þann farveg er oftast tvennt til, að koma sér í eðlilegt níu til fimm-starf eða halda áfram í adrenalínstörfum sem Ragnar gerði. Hann fór sem friðargæsluliði til Afganistan þegar kominn var tími til að byggja þá þjóð upp aftur. Þar kynntist hann þeim mönnum sem fóru með honum til Slóvakíu og einfaldlega náðu í Adam son hans.
„Þeir voru tilbúnir að hjálpa mér en það var auðvitað ekki ókeypis. Þetta var vinnutap fyrir okkur alla og ég borgaði þeim það upp auk þess að greiða allan kostnað við ferðina,“ segir Ragnar og rifjar upp erfitt augnablik á norskum vinnumarkaði.
„Fyrsta daginn minn hjá NorSea þurfti ég að fara til yfirmanns míns og segja honum frá þessu og að ég þyrfti frí í nokkra daga. Það voru hryllilega þung skref. En hann tók mér vel og græjaði þetta fyrir mig, ég fékk launalaust frí á fyrsta degi, þetta var alveg galið,“ segir Ragnar sem klárlega hefði verið litinn alvarlegu hornauga á flestum vinnustöðum. Alltént á fyrsta degi.
Svo hófst aðgerðin.
„Við áttum að vera fimm samanlagt en tveir forfölluðust á síðustu stundu, eftir stóð ég ásamt tveimur Dönum, annar þeirra hafði verið lífvörður í Sádi-Arabíu,“ segir Ragnar frá. Lífvörðurinn fyrrverandi var bílstjóri daginn örlagaríka og átti heldur betur eftir að sýna hvað í honum bjó.
„Við keyrðum frá Danmörku til Slóvakíu og skoðuðum svæðið kringum húsið sem Jana bjó í. Bærinn, Ivanka pri Dunaji, er í um fimm mínútna fjarlægð frá [höfuðborginni] Bratislava. Við skoðuðum skólann og fórum svo í svokallað „dry run“ sem er æfingaakstur miðaður við flóttaleiðina, í þessu tilfelli frá Ivanka gegnum Bratislava og til landamærahliðanna við Austurríki og Ungverjaland sem eru bara hlið við hlið,“ lýsir Ragnar.
Allt var reiknað út, hve langan tíma tæki að aka út úr Slóvakíu við bestu og verstu aðstæður, þeir félagar fylgdust með lögreglustöðinni í Ivanka og reyndu að skrásetja vaktaskipti sem reyndist ómögulegt, vaktirnar voru óreglulegar og lögreglubifreiðar meira og minna ómerktar.
„Við vorum með fjórar áætlanir, A, B, C og D – A ef allt gengi upp og D ef allt færi til helvítis, og tilbúnir að skipta á milli þeirra ef þess þyrfti. Við reiknuðum líka með því að lögreglan næði okkur á leið út úr landinu,“ segir Ragnar frá atburðum októbermánaðar 2015.
„Við keyrðum til Vínar í Austurríki og keyptum þar einkennisbúninga sem líktust lögregubúningum, gul vesti og fleira til að afvegaleiða almenning svo fólk héldi að um lögregluaðgerð væri að ræða og færi ekki að blanda sér í málið.“
Svo var komið að sjálfri aðgerðinni – að sækja íslenskt barn til Slóvakíu til móður sem hafði það í sinni umsjá í trássi við niðurstöðu íslenskra dómstóla. Stuðningur íslenska ríkisins var enginn – að frátöldu starfsfólki sendiráðsins í Ósló.
„Svo opnast gluggi á sunnudeginum, tveimur vikum eftir að Adam átti að vera kominn til baka,“ segir Ragnar af stóra deginum. Jana fór þá með Adam á pítsastað og þar með létu Ragnar og gömlu félagarnir úr friðargæslunni í Afganistan til skarar skríða.
„Ég gekk í áttina að Jönu og annar Daninn í átt að Adam og þegar við komum að þeim legg ég Jönu í jörðina og hann tekur strákinn og snýr honum þannig að hann sjái ekki hvað er að gerast. Við förum svo með hann inn í bíl og keyrum í burtu, þetta tók ekki nema sekúndur enda vorum við búnir að æfa þetta margoft,“ segir Ragnar og þar með var komið að flóttanum frá Slóvakíu.
„Þá kom upp staða sem við bjuggumst ekki við. Eftir nokkur hundruð metra akstur komum við að stuttum vegi sem liggur að hraðbrautinni til Bratislava og átti ekki að vera nokkurt mál nema hvað að þar var umferðarteppa, við vissum ekki hvað hefði gerst, hugsanlega árekstur,“ rifjar Ragnar upp af augnablikum sem settu alla aðgerðina í voða því lögreglan í Ivanka pri Dunaji var skotfljót á vettvang, hún ætlaði ekki að láta einhverja útlendinga komast upp með barnsrán á sínum heimavelli.
„Bílstjórinn okkar fór yfir á öfugan vegarhelming og blikkaði háu ljósunum og öll umferð á móti vék til hliðar, lögreglustöðin var þarna rétt hjá,“ segir Ragnar. Þar með var komið að brú á leiðinni til Bratislava og nú kastaði tólfunum.
„Þarna voru blá ljós úti um allt og lögreglan búin að stöðva bíl sem var sömu gerðar og okkar. Lögregluþjónn kom auga á bílinn okkar og kallaði eitthvað í talstöðina sína en þarna kom snilligáfa bílstjórans okkar fyrst í ljós,“ segir Ragnar frá og lýsir því hvernig lífvörðurinn fyrrverandi í Sádi-Arabíu náði að fela flóttabílinn bak við röð bíla á brúnni og lauma sér þannig út af henni fram hjá fjölda lögregluþjóna.
„Við komumst yfir brúna og gátum keyrt beint yfir til Bratislava og þá var bara að velja hvort við ættum að keyra inn í Austurríki eða Ungverjaland,“ segir Ragnar en sú ákvörðun var auðveld. „Við höfðum allir einhverja vonda tilfinningu fyrir landamærahliðinu til Austurríkis svo við keyrðum að hliðinu til Ungverjalands, munar bara mínútum, og skömmu síðar tökum við eftir því að tveir ómerktir bílar eru á eftir okkur og mér skilst að lögreglan þarna megi elta bíla yfir landamæri svo lengi sem um óslitna eftirför sé að ræða,“ segir íslenski faðirinn sem þarna leist ekki á blikuna.
Aftur reyndist bílstjórinn þá traustsins verður, hann ók inn á hvíldarsvæði vörubifreiðastjóra og faldi flóttabílinn á bak við næsta trukk. „Svo sáum við ómerktu bílana bara þjóta fram hjá,“ segir Ragnar frá. Björninn var þó ekki unninn – ekki alveg.
„Svo keyrðum við alla leið til Frankfurt í Þýskalandi og þar urðum við bara að koma okkur á hótel og sofa nokkra tíma,“ segir Ragnar og í fyrsta sinn vottar fyrir gleði í röddinni, þetta eru ekki allt góðar minningar þótt endalokin hafi verið farsæl.
Hvernig tók Adam þessu þegar hann var búinn að átta sig eftir að þið hrifsuðuð hann á götu í Ivanka pri Dunaji?
„Það er nú dálítið gaman að segja frá því að þegar hann áttaði sig á að þetta væri ég sagði hann fyrst: „Pabbi, hvað ert þú að gera hérna?“, hann var náttúrulega bara sex ára þarna og skildi ekki alla atburðarásina,“ svarar Ragnar.
En hótelið í Frankfurt, þið hafið þurft að gera grein fyrir ykkur með vegabréfum, var það ekki áhættuatriði?
„Við Adam vorum eftirlýstir hjá Interpol í tvo sólarhringa, Jana náði að koma því í gegn, en við sluppum þótt við þyrftum að sýna vegabréfin á hótelinu,“ svarar Ragnar og líður nú að sögulokum á meðan hann lýsir tilfinningunni að aka yfir landamæri Þýskalands og Danmerkur og vera komnir til Norðurlandanna á ný. „Þarna fundum við bara að við vorum sloppnir og þegar við komum til Kristiansand með ferjunni frá Hirtshals á Jótlandi, sú tilfinning var hreinlega ótrúleg,“ segir Ragnar og tíu ára gömlum létti er endurvarpað í röddinni.
Auðvitað varð aðgerð Ragnars og gömlu friðargæslufélaganna fréttaefni í Slóvakíu þar sem barnsmóðir hans ræddi við fjölmiðla. Ragnar setti sig hins vegar í samband við Joj, eina stærstu sjónvarpsstöð landsins, og bauð einfaldlega sögu sína ásamt dómi héraðsdóms.
„Þarna hafði Jana fullyrt við fjölda fjölmiðla að ég væri barnsræningi en fréttamenn Joj buðu henni í viðtal og báru íslensku gögnin undir hana og þar féll spilaborgin,“ segir Ragnar frá sem skyndilega var ekki eftirlýstur hjá Interpol lengur. Málið sem slóvakíska lögreglan taldi sig hafa í höndunum bráðnaði eins og smjör í gluggakistu.
Þrátt fyrir að komið væri heim til Noregs og málinu lokið líkamlega var málinu ekki lokið andlega. Langt í frá.
„Adam byrjaði aftur í skólanum stuttu síðar og ég fékk vinafólk til að fylgja honum í skólann í þrjár vikur, ég keypti handa honum úr með GPS-tæki og gerði allar ráðstafanir sem ég gat í tvo mánuði, yfirleitt er alltaf eitthvað gert – ef það er þá gert – á fyrstu tveimur til átta vikunum eftir svona aðgerðir,“ segir Ragnar.
Norsk barnaverndaryfirvöld mæltu með því að allt samband við móðurina yrði rofið. „Lögfræðingarnir sögðu mig í fullum rétti þar en ég gat ekki tekið það skref, ég óttaðist alltaf reiðan, ráðvilltan eða óöruggan ungling eða ungan mann. Mér fannst það ekki rétta leiðin. Ég tók því frekar þá ákvörðun að segja Adam allt, líka að hann ætti móður sem elskaði hann þótt hann gæti ekki hitt hana strax,“ segir viðmælandinn.
Adam fékk að hitta móður sína á ný fyrir þremur árum. Þá fór hann til Slóvakíu í fyrsta sinn síðan atburðir haustsins 2015 áttu sér stað, en að því kom að þeim mæðginum lenti saman og síðan hefur Adam ekki verið í samskiptum við móður sína.
„Síðan þá hefur hann aðeins farið út til að hitta fjölskyldu hennar,“ útskýrir Ragnar, „þau tala ekki við hana og hafa ekki gert í mörg ár. Samband þeirra Adams er enn til staðar en það byggir á veikum grunni. Hann er sinn eigin herra núna, kominn í framhaldsskóla hér í Bryne [í Rogaland], lauk grunnskóla með hæstu einkunn, æfir fótbolta og lyftingar og er bara flottur maður sem ég gæti ekki verið stoltari af,“ segir faðirinn.
En hvernig líður þér þá sjálfum, er þessu máli lokið?
„Já, því er lokið þannig séð,“ svarar Ragnar þótt einhver fyrirvari sé í röddinni og ekki að tilefnislausu. Hann segir frá. „Einhver Marco á Ítalíu hafði samband við mig á Facebook eftir þetta, sagðist hafa heyrt af því sem ég gerði og að hann væri aðdáandi minn. Ég hélt bara að þetta væri einhver rugludallur en spjallaði samt við hann,“ segir Ragnar og varð hvumsa við það er hann fékk að heyra.
Marco þessi átti einnig barn í Slóvakíu sem hann hafði ekki séð í rúm tvö ár og bauð Ragnari inngöngu í Facebook-hóp þar sem um fjórða hundrað manns eiga aðild.
„Þetta eru að mestu leyti karlmenn sem eru án barna sinna sem eru hjá mæðrum í Slóvakíu og þarna er fjöldi fólks sem hefur fengið dóma fyrir sínu forræði en yfirvöld í Slóvakíu neita bara, kerfið þar ver sig innan frá,“ segir Ragnar og nefnir nákvæma tölu hópverja sem eru 322 foreldrar sem eiga börn í Slóvakíu sem þeir hafa enga möguleika á að nálgast.
„Barnsmóðir mín viðurkenndi það síðar meir að hún hefði fengið aðstoð slóvakískra yfirvalda við að ræna barninu, hún fór til einhvers opinbers embættis sem sagði hreinlega við hana að ef hún gæti fengið barnið til sín til Slóvakíu væru yfirgnæfandi líkur á að hún fengi að halda því,“ segir Ragnar, „hún viðurkenndi þetta fyrir mér síðar,“ segir hann og við nálgumst lokaorð í dapurlegu máli.
„Núna er ég nýorðinn fimmtugur og ég var nýorðinn fertugur þegar þetta gerðist 2015 og stórafmælið, sem maður hefði að öllu jöfnu átt að hlakka til, ég eiginlega bara kveið því. Þetta var mjög erfiður tími og auðvitað situr þetta í mér. Þetta viðtal núna þegar tíu ár eru liðin er mín leið til að skrúfa tappann á þetta mál, loka þessu endanlega,“ segir Ragnar Vilhelmsen Hafsteinsson, stoltur faðir í Noregi, við Morgunblaðið.