Segist ekkert hafa vitað um aðkomu stofu eiginmannsins

Unnur Lilja Hermannsdóttir er annar tveggja skiptastjóra yfir búi Play.
Unnur Lilja Hermannsdóttir er annar tveggja skiptastjóra yfir búi Play. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/aðsend

Unnur Lilja Hermannsdóttir, annar skiptastjóra þrotabús Play, telur að hæfi hennar gagnvart þrotabúinu sé óskert, jafnvel þótt lögmannsstofa þar sem eiginmaður hennar er einn eigenda, BBA//Fjeldco, hafi verið helsti ráðgjafi Play.

Ekki síst átti það við þegar kom að skuldabréfaútboði og stofnun félags sem hafði þann tilgang að tryggja veð skuldabréfaútgefenda í gegnum maltneska starfsemi Play.

Meðal annars hefur því verið velt upp þeim möguleika að þrotabúið fari í riftunarmál gagnvart þeim viðskiptagjörningi sem tryggði lánveitendum í skuldabréfaútboði Play veð í Fly Play Europe á Möltu. Fari svo mun BBA//Fjeldco taka til varna gegn þrotabúinu.

Skýr verkaskipting

Unnur segir í skriflegu svari til mbl.is að hún og Arnar Þór Stefánsson, sem einnig er skiptastjóri, skipti með sér verkum og að samkomulag ríki þeirra á milli um að allt sem viðkemur skuldabréfaútboði Play í ágúst, sem og verkefnum sem BBA//Fjeldco kom að fyrir Play, verði á herðum Arnars Þórs.

„Með þeirri verkaskiptingu fær hvor skiptastjóri fullt umboð til að taka ákvarðanir og gera ráðstafanir sem tengjast þeim verkefnum sem honum eru falin. Arnar Þór mun m.a. fjalla um allt sem varðar skuldabréfaútgáfu Play og tekur allar nauðsynlegar ákvarðanir í þeim efnum án minnar aðkomu,“ segir Unnur Lilja.

Hvorki vissi né gat vitað

Fram kom í samtali Ingibjargar Þorsteinsdóttur, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, við mbl.is að dómnum hefði ekki verið kunnugt um fjölskyldutengsl Unnar þegar henni var úthlutað búinu.

Lögmönnum er gert að meta eigið hæfi þegar kemur að því að taka að sér þrotabú. Unnur segist ekkert hafa vitað fyrir fram í hverju vinna BBA//Fjeldco fólst fyrir Play.

„Ég taldi ekki ástæðu til að gera það, enda hvorki vissi ég né gat vitað í hverju vinna BBA//Fjeldco fólst umfram aðra,“ segir Unnur.

Spurð hvort hún telji hæfi sitt tryggt í ljósi stöðu eiginmanns síns er svarið einfalt:

„Já.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert