Sögulegur dagur sem gefi von um frið

„Þetta er sögulegur dagur, sem gefur okkur von fyrir fólkið í Palestínu og lausn gíslanna. Það er það sem við þurfum að ræða og hvernig við getum stutt við bakið á Palestínu til framtíðar,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra þegar hún ávarpaði fjölmiðla við upphaf fundar hennar með Varsen Aghabekian, utanríkisráðherra Palestínu, í morgun. 

Þorgerður og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra funda síðar í dag með Aghabekian en hún er stödd hér á landi í boði utanríkisráðherra. Hún mun á morgun sækja friðarráðstefnu sem haldin verður í Háskóla Íslands þar sem hún mun vera með erindi. 

Aghabekian er ráðherra palestínsku heimastjórnarinnar sem er undir stjórn Fatah-samtakanna. 

Utanríkisráðherrarnir takast í hendur við upphaf fundarins.
Utanríkisráðherrarnir takast í hendur við upphaf fundarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland eigi sérstakan hjartastað

Aghabekian sagði íslensku þjóðina eiga sérstakan stað í hjarta Palestínumanna þar sem Ísland hafi verið á meðal þeirra fyrstu ríkja sem viðurkenndu sjálfstæði Palestínu.

„Í dag ræðum við bjartari framtíð fyrir Palestínu með aðstoð Íslands. Í dag er góður dagur fyrir Palestínumenn en við trúum að stríðið muni brátt enda og Palestínumenn geti horft til betri framtíðar,“ sagði Aghabekian.

Hverjar eru væntingar þínar til fundarins í dag með íslensku ráðherrunum?

„Við munum ræða hvar við getum styrkt tvíhliða samband okkar þar sem Ísland getur orðið mikilvægur þátttakandi í uppbyggingarferlinu og mikilvægur þátttakandi á alþjóðavettvangi,“ sagði Aghabekian.

Þorgerður sagði daginn í dag vera fyrsta skrefið í átt að tveggja ríkja lausn milli Ísraels og Palestínu.

„Í dag ræðum við bjartari framtíð fyrir Palestínu með aðstoð …
„Í dag ræðum við bjartari framtíð fyrir Palestínu með aðstoð Íslands,“ sagði Aghabekian. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka