Arnar Þór Stefánsson, skiptastjóri þrotabús Play, staðfestir að samkomulag ríki á milli hans og Unnar Lilju Hermannsdóttur, sem einnig er skiptastjóri yfir búinu, um að hann taki að sér allt sem viðkemur skuldabréfaútboði í ágúst eða ef mál varða lögmannsstofu eiginmanns Unnar, BBA/Fjeldco.
BBA/Fjeldco var helsti ráðgjafi Play þegar kom að skuldabréfaútboði og stofnun nýs félags sem hafði það að markmiði að tengja starfsemi Play við maltneska starfsemi flugfélagsins. Þannig gátu lánveitendurnir fengið veð í Fly Play Europe á Möltu við útgáfu skuldabréfs.
Einnig var lögmaður á vegum BBA Fjeldco sem lagði inn gjaldþrotabeiðni fyrir hönd Play.
Unnur sagði í skriflegu svari til mbl.is að hún myndi ekki koma nærri málum er snúa að lögmannsstofunni BBA Fjeldco þar sem maður hennar, Tómas Magnús Þórhallsson, er einn eigenda.
Arnar Þór segir í samtali við mbl.is að samkomulag um verkaskiptinguna hefði verið undirritað 6. október.
Í gjaldþrotaskiptalögum er ákvæði sem kveður á um að skiptastjórar ákveði hvernig þeir skipta með sér verkum ef þeir eru tveir eða fleiri.
Sjaldgæft er að fleiri en einn skiptastjóri sé yfir þrotabúum. Seinast voru tveir skiptastjórar skipaðir yfir búi WOW air árið 2019.
Í bankahruninu voru skipaðar slitastjórnir sem voru annars eðlis og sinntu öðru hlutverki en skiptastjórar.
Fyrir það má nefna að tveir skiptastjórar voru yfir þrotabúi Miklagarðs árið 1993.
Að minnsta kosti einu sinni hafa verið þrír skiptastjórar verið kallaðir til, en það var þegar Hafskip voru lýst gjaldþrota árið 1985.