Kynjaaðskilnaðarstefnan (e. gender apartheid) er glæpur gegn mannkyninu og hana ber að skilgreina sem slíkan undir Sameinuðu þjóðunum.
Þetta segir íranska leik- og baráttukonan Nazanin Boniadi í samtali við blaðamann mbl.is.
Hún hefur barist fyrir því að kynjaaðskilnaðarstefnan verði viðurkennd í alþjóðalögum og segir að án þess sé ómögulegt að draga kúgunaraðila, eins og klerkaveldið í Íran og talíbana í Afganistan, til ábyrgðar.
Frelsi og réttindi írönsku þjóðarinnar, einkum kvenna, hafa verið gríðarlega skert frá yfirtöku klerkastjórnarinnar í íslömsku byltingunni árið 1979, sem einnig er fæðingarár Boniadi en foreldrar hennar flúðu með hana aðeins 20 daga gamla til Bretlands, þar sem faðir hennar var kominn á aftökulista fyrir mótmæli sín, líkt og kom fram í viðtali sem birtist á mbl.is í gær.
Sem leikkona er Boniadi hvað þekktust fyrir hlutverk sín í þáttum á borð við How I Met Your Mother, Homeland og The Lord of the Rings: The Rings of Power en hún hefur helgað miklum hluta af ferli sínum til að berjast fyrir mannréttindum, meðal annars í Íran.
Hún er í heimsókn hér á landi í tilefni af árlegri friðarráðstefnu Höfða, friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, og utanríkisráðuneytisins. Ráðstefnan verður haldin á föstudag í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Þú hefur, ásamt fleira baráttufólki, kallað eftir því að kynjaaðskilnaðarstefnan verði viðurkennd í alþjóðalögum. Hvað myndi sú viðurkenning þýða í reynd?
„Það er ómögulegt að draga kúgunaraðila til ábyrgðar nema eitthvað formlegt sé til staðar alþjóðlega. Að viðurkenna kerfið sem þegar er til staðar í löndum eins og Íran, undir klerkaveldinu, og Afganistan, undir talíbönunum, og að kalla það sínu raunverulega nafni, sem er kynjaaðskilnaðarstefna, gerir okkur kleift að draga gerendur til ábyrgðar.
Ef kerfið er ekki viðurkennt undir alþjóðalögum getum við ekkert gert í nafni réttlætisins. Þannig að í reynd snýst þetta í grunninn um að kalla ástandið réttu nafni en einnig að finna leið undir alþjóðalögum til að draga gerendur til ábyrgðar.“
Ef stefnan verður viðurkennd, verður hún þá skilgreind sem glæpur gegn mannkyninu?
„Það er það sem hún er og hún ætti að vera það undir Sameinuðu þjóðunum. Það er það sem við erum að berjast fyrir, að þetta verði viðurkennt sem glæpur gegn mannkyninu. Það eru svo margar íranskar og afganskar konur, aktívistar, og fleiri sem eru að berjast fyrir þessu.“
Aðskilnaðarstefnan eigi ekki einungis við um kynþætti. Kynþáttaaðskilnaðarstefnan sé viðurkennd undir alþjóðalögum en ef hún hefði ekki verið skráð í lög hefði meirihlutinn í Suður-Afríku ekki fengið pólitísk völd um 1996.
Því var náð fram með áratuga baráttu róttækra afla um allan heim og langvinnu viðskiptabanni sem Ísland tók m.a. þátt í.
Þannig segir Boniadi að til að vinna bug á ástandinu verði að byrja á að kalla það réttu nafni. Þá opnist fyrir næstu skref, að skrásetja, taka viðtöl og nota það til að draga gerendur til ábyrgðar.
Boniadi segir hugtakið kynjaaðskilnaðarstefna ekki vera nýtt af nálinni en það hafi nýlega fengið aukna notkun í orðaforða löggjafarvaldsins og þeirra sem berjast fyrir mannréttindum.
„Ég held að fólk hafi forðast það svolítið af því að það hugsaði: þetta er ekki raunverulega löglegt hugtak. En það sem við erum að þrýsta á og það sem við erum að sjá raungerast er að því meira sem hugtakið er notað því óneitanlegra verður það,“ segir hún.
„Þetta er nýtt, að sjá alþjóðleg mannréttindasamtök og alþjóðlega löggjafaraðila nota hugtakið kynjaaðskilnaðarstefna kokhrausta, vegna þess að þeir átta sig á því að við erum á góðri leið við að fá það skráð í lög, vonandi,“ segir leik- og baráttukonan enn fremur.