Streymisveitnaskattur lítur dagsins ljós

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Logi Einarsson.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Logi Einarsson. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/AFP

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur kynnt frumvarp um streymisveitnaskatt. 

Frumvarpið, sem sjá má í samráðsgátt, kveður á um að innlendar og erlendar streymisveitur greiði 5% skatt af heildartekjum sínum af sölu áskrifta á Íslandi. Ráðuneytið kallar þetta „menningarframlag“.

„Á síðustu árum hefur samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla, sem kemur niður á framleiðslu innlends efnis og veikir þar með stöðu íslenskrar tungu,“ segir í frumvarpinu. 

Stærstu einkareknu streymisveiturnar hér á landi eru Stöð 2+ í eigu Sýnar og Sjónvarp Símans Premium, í eigu Símans. Erlendar streymisveitur með starfsemi hér á landi eru a.m.k. Netflix, Disney+, Viaplay, Amazon Prime Video og HBO MAX.

Ríkisútvarpið undanþegið skattinum

Skatturinn lækkar í samræmi við umfang beinna fjárfestinga í framleiðslu á innlendu efni og fellur skatturinn niður ef streymisveiturnar verja 5% af áskriftartekjum sínum í framleiðslu innlends efnis. 

„Heimilt verði að dreifa kostnaði við beina fjárfestingu í innlendu efni sem umfram er 5% af stofni til útreiknings menningarframlags á allt að þrjú ár.“

Hægt er að vera undanþeginn skattinum ef ársvelta streymisveitunnar er undir 20 milljónum króna eða áskrifendafjöldi er undir 1% af fjölda heimila á Íslandi. Ríkisútvarpið fær þó að vera undanþegið skattgreiðslunni. 

„Ríkisútvarpið verði undanþegið greiðslu menningarframlags, með vísan til þeirra skyldna sem nú þegar hvíla á Ríkisútvarpinu um þátttöku þess í kvikmynda- og sjónvarpsgerð, m.a. með kaupum af sjálfstæðum framleiðendum. Hið sama gildi um aðra sambærilega fjölmiðla sem heyra undir lög um almannaþjónustufjölmiðla í öðrum EES-ríkjum.“

Einnig verða streymisveitur sem einungis miðla íþróttaefni, fréttum eða trúarlegu efni undanþegnar greiðslu streymisveitnaskattsins.

Á að jafna samkeppnisstöðu innlendra miðla

„Markmið frumvarpsins er að efla íslenska menningu og íslenska tungu með því að hvetja til fjárfestingar í framleiðslu kvikmynda, stuttmynda, leikins sjónvarpsefnis og heimildamynda, sem eru á íslensku eða hafa aðra íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun,“ segir í samráðsgátt.

„Frumvarpið er liður í því að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum streymisveitum. Auk þess kann aukin fjárfesting í framleiðslu á innlendu efni að leiða til fleiri atvinnutækifæra fagfólks sem starfar við sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu hér á landi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert