„Tímasetningar skipta mjög miklu máli“

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra segir mikilvægt að samræma hvenær stórar framkvæmdir …
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra segir mikilvægt að samræma hvenær stórar framkvæmdir fari af stað og hver áhrif af því verði. Samsett mynd/Karítas/Eggert

Á sama tíma og Seðlabankinn vinnur að því að ná niður verðbólgu eru opinber fyrirtæki mörg hver að huga að stórum fjárfestingum á komandi misserum og árum. Seðlabankastjóri segir mikilvægt að huga að tímasetningu stórra framkvæmda og fjárfestinga og rétt sé að slíkar aðgerðir séu hugsaðar í heildarsamhengi og með blessun yfirvalda.

Í vikunni var greint frá því að Orkuveitan hygðist ráðast í 50 milljarða árlegar fjárfestingar á næstu fimm árum. Þá stefnir Landsvirkjun áfram að byggingu Hvammsvirkjunar og Isavia er á fullu í sínu Masterplani um stækkun og breytingar á flugstöðinni í Keflavík. Eru þetta bara nokkur dæmi af mörgum um stórar opinberar framkvæmdir á komandi árum en einnig má nefna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Innviðaskuld en tímasetningin skiptir miklu

Ásgeir byrjar á að taka fram að hann telji ríkið vera í innviðaskuld þegar komi að t.d. vegakerfi, orkukerfi og orkuframleiðslu. Hins vegar þurfi að ræða hversu mikið eigi að gera á hverjum tíma og ekki síst hvenær eigi að hefja slíkar framkvæmdir.

„Tímasetningar skipta mjög miklu máli þegar stórframkvæmdir eiga sér stað,“ segir hann og vísar til álveranna þriggja. Straumsvík hafi verið byggt eftir að síldin hvarf. Nokkuð góð tímasetning hafi einnig verið þegar farið var af stað með Norðurál, en álverið fyrir austan hafi verið byggt á þenslutímum og ýtt undir þensluna.

Verkefni eigi að vera klár á hliðarlínunni

Hann segir að ríkið eigi alltaf að hafa verkefni klár á hliðarlínunni til að bregðast við þegar komi að því að hagkerfið sé að kólna, líkt og hann telji að gert hafi þegar faraldurinn skall á. Nefnir hann í því samhengi Sundabraut sem gott hefði verið að byrja á á þeim tímapunkti. Bæði ýti slíkar framkvæmdir kerfinu af stað og þá fáist líka hagstæðari tilboð.

Spurður hvort nú sé rétti tíminn til að fara í allar þær framkvæmdir sem séu fyrirhugaðar gefur Ásgeir engin föst svör. „Mögulega, mögulega ekki, ég veit það ekki.“

Ekki rétt að hver aðili hugsi bara um sig

En hefur hann áhyggjur af áhrifum af þessum framkvæmdum? „Já ég held að það þurfi að huga að því hvernig þær koma inn í kerfið,“ segir Ásgeir og bætir við að opinberir aðilar þurfi að hugsa svona framkvæmdir í heildarsamhengi. „Ekki að það sé hver aðili að hugsa um sig og álíta að hann hafi ekki áhrif.“ Telur hann að rétt gæti verið að fjármálaráðuneytið hefði þessa yfirsýn.

„Það getur enginn neitað því að þörfin er til staðar,“ segir Ásgeir um fjárfestingaþörfina, en að huga þurfi vel að því hvenær sé farið af stað í hvaða verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert