Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið (ESB) myndu í engu snúast um undanþágur Íslands frá stefnu sambandsins, aðeins aðlögun Íslands að verðandi sambandsríki. Það er tóm ímyndun að halda öðru fram, segir breski Íhaldsmaðurinn Daniel Hannan, sem sat í 21 ár á Evrópuþinginu.
„Augljóslega er það ykkar að ákveða hvort þið viljið gera þetta, en við skulum ekki ímynda okkur að ESB breytist eða bjóði einhvern sérstakan, einstakan samning til Íslands sem það býður ekki neinum öðrum,“ segir Hannan.
Daniel Hannan var ötull talsmaður úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og var fyrir vikið aðlaður 2020, en hefur síðan setið í efri deild breska þingsins og atkvæðamaður Íhaldsflokksins þar. Hann má einnig teljast Íslandsvinur, hefur komið margsinnis til landsins allt frá árinu 1991 og á hér marga vini.
Við hann er rætt í þætti Dagmála, sem birtur er í dag, en þar er m.a. fjallað um Evrópuspurninguna, stjórnmálaástandið bæði í Bretlandi og á meginlandinu, framtíð frjálslyndra lífsviðhorfa gagnvart uppgangi pópúlisma og fleira.
„Evrópusamandið er ósveigjanlegasta stofnunin, og hefur verið það í 70 ár. Það býður ekki upp á sveigjanleika.“
Hann telur að það sé ástæða þess að Brexit-viðræðurnar um úrsögn Breta úr ESB hafi reynst svo skaðlegar fyrir báða aðila, þær hefðu getað gengið mun betur, báðum aðilum til hagsbóta.
„ESB mun ekki hreyfa sig um einn millimetra frá því hvernig því líkar að gera hlutina. Hugmyndin um að það sé einhvers konar sérstakur samningur í boði, segjum til dæmis um fiskveiðar… jafnvel eftir að við fórum, geta þeir ekki tilfinningalega samþykkt að þeir hafi ekki rétt til að veiða í okkar lögsögu. Það er viðvarandi vandamál.“
Staðreynd málsins sé sú að innganga eða samningur við Evrópusambandið sé ekki útgjaldalaus og á því verði fólk að átta sig.
„Þið gætuð ákveðið að það sé verðið sem þarf að borga, en ekki láta eins að það verði ekki verð, skilurðu? Ekki ímynda ykkur að þið fáið einhverja undanþágu. Það er bara ekki það sem þeir gera.“
Hannan telur að misskilnings gæti um eðli aðildarviðræðna, sem séu ekki samningaviðræður heldur viðræður um hvernig umsóknarríki undirbúi sig og aðlagi sig að Evrópusambandinu, en ekki öfugt.
„[Það eru] ekki viðræður um að breyta stefnu ESB. Það er aldrei á dagskrá.“
Hann minnir á að kostnaðurinn sé ekki aðeins greiddur við inngöngu og nefnir að eftir því sem ESB stækki aukist tilfærsla fjármuna innna þess.
„Þannig að lönd með hærri vergri landsframleiðslu á mann – eins og Ísland – munu enda með að borga meira til að niðurgreiða ný aðildarríki eins og Moldóvu eða hvað sem er, eða jafnvel núverandi aðildarríki.“
Sömuleiðis sé dagljóst og ekkert leyndarmál að höfuðstefna ESB sé að auka og dýpka Evrópusamrunann, auka miðstýringarvald Brussels með stofnun yfirþjóðlegs sambandsríkis að markmiði. Því sé um minna að ræða í aðildarviðræðum en margir virðist halda.
„Það er ekkert að kanna. Ef það væru aðeins viðræður, væri það eitt.“ En þar sem menn viti hvað ESB er og að hverju umsóknarríki gengur, þá snúist vilji Íslendinga til aðildarviðræðna aðeins um hvort hefjast eigi handa við aðlögun stofnana ríkisins að stjórnkerfi ESB og breytingu á opinberri stjórnarstefnu í væntingu um möguleika á fullri aðild.
„Það er það, sem þjóðaratkvæðagreiðslan mun raunverulaga snúast um. Það mun ekki snúast um hvort menn ætli að eiga áhugaverðu umræðu. Við gætum haft þessa áhugaverðu umræðu núna. Það snýst um hvort Ísland ætti að byrja að undirbúa sig skipulagslega og stofnanalega fyrir aðildarferlið.“
Íslendingar þurfi því að hugsa sig vel um og horfa til framtíðar um það hvort þeir vilji innlima sig í evrópskt sambandsríki til frambúðar.
Dagmál eru viðræðuþættir Morgunblaðsins á netinu, sem opnir eru öllum áskrifendum.