Vegagerðin mælir með brú fremur en göngum á Sundabraut

Mælt er með því að brú verði lögð við gerð …
Mælt er með því að brú verði lögð við gerð Sundabrautar. Vegagerðin

Vegagerðin mælir skýrt með því að brú verði fyrir valinu við gerð nýrrar Sundabrautar fremur en að jarðgöng verði fyrir valinu. 

Þetta kemur fram í pistli á vef Vegagerðarinnar.  Umhverfismatsskýrsla sem Skipulagsstofnun birtir mun birtast í næstu viku og eru þetta sjónarmið Vegagarðarinnar í þeirri skýsrlu. 

Er þar mælt með því að brú verði lögð milli Sæbrautar og Gufuness, í stað jarðgangakosts undir Kleppsvík.

Brúarlausnin er sögð hagkvæmari, betri fyrir tengingar Grafarvogs og samrýmist betur framtíðarsýn um vistvænar og fjölbreyttar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Helstu markmið Sundabrautar eru að draga úr umferðarþunga á núverandi leiðum og tengja betur saman Vestur- og Norðurland við höfuðborgarsvæðið. Þá á brautin að auka umferðaröryggi, minnka ferðatíma og draga úr mengun og útblæstri.

Sundabraut er m.a. ætlað að draga úr umferðaþunga.
Sundabraut er m.a. ætlað að draga úr umferðaþunga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jarðgöng talin of dýr og flókin lausn

Í skýrslu Vegagerðarinnar kemur fram að jarðgangalausn undir Kleppsvík væri umfangsmikil, kostnaðarsöm og tæknilega flókin framkvæmd sem síður myndi ná markmiðum verkefnisins. Göngin þyrftu að liggja allt að 80 metrum undir sjávarmáli og vera of löng til að tryggja öryggi vegfarenda, meðal annars vegna brunahættu.

Slík mannvirki myndu, að mati Vegagerðarinnar, verða umtalsvert dýrari en brúarlausnin og flækja tengingar við aðliggjandi vegakerfi.

Brú bætir tengingar og dregur úr umferð í hverfum

Brúarvalkosturinn býður hins vegar upp á styttri og beinni tengingu við Grafarvog og gerir íbúum hverfisins kleift að tengjast Sundabraut hraðar og með fleiri aðkomuleiðum. Með því styttist ferðatími Grafarvogsbúa og dregur úr innanhverfisumferð.

Greining Vegagerðarinnar sýnir jafnframt að brúin muni létta meira á umferð um Gullinbrú og Höfðabakka en jarðgöng myndu gera. Þá er ekki gert ráð fyrir að breikka þurfi Hallsveg, þar sem ekki er talið að umferð úr öðrum hverfum muni leita um Grafarvog til að komast yfir brúna.

Að auki býður brúarlausnin upp á möguleika til að þróa Hallsveg sem samgönguás með fjölbreyttum ferðamátum, þar á meðal almenningssamgöngum, hjóla- og gönguleiðum, í samræmi við stefnu höfuðborgarsvæðisins um vistvænari samgöngur.

Næstu skref: kynning og umhverfismat

Undirbúningur Sundabrautar er sagður í fullum gangi og unnið er í samstarfi Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.

Á næstu vikum verða haldnir kynningarfundir í Reykjavík, Mosfellsbæ og á Akranesi, þar sem drög að umhverfismatsskýrslu og aðalskipulagsbreytingum verða kynnt.

Vegagerðin gerir ráð fyrir að umhverfismatsskýrslan verði birt í samráðsgátt Skipulagsstofnunar í næstu viku og hvetur almenning til að senda inn athugasemdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert