„Ég kom hérna út árið 2014, þá var bara ekki hægt að taka þetta próf heima á Íslandi,“ segir Gísli Björnsson sem flýgur sjúkraflutningaþyrlu hjá einkafyrirtæki í Kaliforníu og er búsettur í Santa Rosa, steinsnar frá San Francisco.
Hann flýgur hjá sama fyrirtæki og áhöfn þyrlunnar sem hrapaði niður á hraðbraut í Sacramento á mánudaginn með þeim afleiðingum að þrennt úr áhöfninni liggur í lífshættu á sjúkrahúsi og flaug þessari sömu þyrlu í tvö ár.
„Þessi þyrla er ný, árgerð 2021, og það mun taka ár eða meira af rannsóknum þar til það liggur fyrir hvað kom upp á,“ segir Gísli frá og lofar flugmanninn fyrir að hafa augljóslega reynt að forðast að vélin skylli niður í íbúðarhverfi með enn alvarlegri afleiðingum. Kona úr áhöfninni sem nú berst fyrir lífi sínu, eftir að hafa starfað við að bjarga lífi annarra, er fyrrverandi samstarfskona Gísla.
Aðspurður segir hann þyrluslys virðast algengari í Bandaríkjunum en óinnvígðir haldi, en þar fara líka fram um eitt þúsund sjúkraflug dag hvern, þau séu tíðari en atvik þegar hefðbundnum flugvélum hlekkist á og segir Gísli, einnig aðspurður, að það sé útbreiddur misskilningur að þyrlur hrapi eins og steinn til jarðar komi eitthvað upp á. Gísli tekur fram að flest þyrluslys í sjúkraflugi verði að næturlagi, „núna eru samt allir þyrluflugmenn með nætursjónauka svo slysatíðnin að næturlagi hefur lækkað verulega síðustu fimmtán árin eða svo auk þess sem þyrlurnar eru nú tengdar við gagnabanka sem sýnir nákvæma staðsetningu fjalllendis og stórra háspennulína“, segir Gísli.
„Þú getur í raun gert ótrúlega mikið, bæði notað þyrluspaðana til að mýkja höggið auk þess sem hægt er að notfæra sér hraða þyrlunnar sér í hag kunni menn til verka,“ útskýrir Gísli.
Áhugi Gísla á þyrluflugi hófst á æfingu hjá björgunarsveit á Íslandi árið 2012. Á æfingum með Landhelgisgæslu Íslands rann það upp fyrir honum að þetta væri hans köllun í lífinu – að fljúga þyrlu. En Ísland er lítið, Gæslan tiltölulega fámenn og ráðningar þangað hægar. „Ég er líka kominn með konu hérna og Kaliforníubúar eru alveg einstaklega gestrisið fólk, ég bjó um tíma í Portland í Oregon þar sem stemmningin er líkari því sem við þekkjum á Íslandi, til dæmis meiri áfengisdrykkja,“ segir flugmaðurinn og hlær við.
Ekki var heiglum hent að fá starf sem þyrluflugmaður í Bandaríkjunum, Gísli segir samkeppnina harða í einkageiranum og nefnir sem dæmi stöður sem tuttugu manns sóttu um og þrír voru ráðnir eftir ítarleg viðtöl og kannanir á hæfni manna.
„Við gerum til dæmis mikið af því að flytja sjúklinga milli sjúkrahúsa komi í ljós að ákveðið sjúkrahús geti ekki veitt einhverja ákveðna meðferð og heppilegra sé að nota þyrlu en hefðbundinn sjúkrabíl, þyrlurnar eru einfaldlega mun fljótari, en annars sinnum við öllu hefðbundnu sjúkraflugi,“ segir Gísli sem einnig hefur hlotið þjálfun til að fljúga þyrlu með slökkvibúnaði í samvinnu við slökkviliðið í Santa Rosa. „Ég hef prófað það einu sinni en æfi það mánaðarlega, þetta er aðallega aukaviðbúnaður ef stóru slökkviþyrlurnar komast ekki á vettvang strax,“ útskýrir hann.
Þótt hin almenna ímynd margra af „gullna ríkinu“ Kaliforníu sé sól og logn og óskiljanlegt að þar starfi veðurfræðingar yfirleitt segir Gísli flugmenn þurfa að fylgjast vel með spám og blikum á lofti sem sett geti mikil strik í reikninginn.
Nú gerðist þetta í fyrradag og þú segir mér að þyrluslys séu algengari en menn halda, hugsarðu mikið út í þá flugferð sem kannski kemur einn daginn þegar eitthvað fer virkilega úrskeiðis?
„Ég held að þú finnir ekki þann flugmann sem ekki hugsar nánast daglega út í þann möguleika,“ svarar sjúkraflugmaðurinn því næst af festu og yfirvegun. „Auðvitað getur maður samt ekki látið slíkar hugsanir slá sig út af laginu, við vitum af áhættunni og við notum orkuna frekar til að sinna starfi okkar af heilum hug,“ bætir hann við.
Hvað með þá tilfinningu að bera í raun ábyrgð á áhöfninni, vinnufélögum þínum, og sjúklingi sem ef til vill er þar að auki í lífshættu? Þau eiga allt undir þér á flugi.
„Ég finn mjög sterklega fyrir því og er auðvitað meðvitaður um hvað ég er með í höndunum, þau þarna aftur í eru stöðugt í huga mér og oftar en ekki bætist auðvitað sjúklingur í misjöfnu ástandi við. Það sem er kannski verst er að heyra öskrin ef einhver er alvarlega slasaður, en ég einbeiti mér bara að mínu hlutverki, þeirra hlutverk er að halda sjúklingnum lifandi, mitt hlutverk er að halda þeim lifandi og koma öllum heilum á áfangastað. Þú mátt samt aldrei taka ástand sjúklingsins of mikið inn á þig, við erum öll ein heild og ekkert okkar má bregðast,“ segir Gísli Björnsson sem flýgur sjúkraþyrlu í Kaliforníu og er sennilega ekkert á leið til Íslands í bili.
„Ég ætla ekkert að útiloka það samt, ég veit ekkert hvað gerist á næstu árum, en hérna er mjög gott að vera,“ segir hann að lokum.