12 ára með áfallastreitu eftir erfiða skólagöngu

Það er mat sálfræðings að stúlkan geti ekki stundað hefðbundið …
Það er mat sálfræðings að stúlkan geti ekki stundað hefðbundið skólanám eins og andlegt ástand hennar er. Samsett mynd/Karítas/Colourbox

Móðir tólf ára stúlku sem hefur verið utan skólaúrræðis í tæp tvö ár óttast að hún muni vinna sjálfri sér og öðrum mein þurfi hún að mæta í skólann, svo alvarlegt er andlegt ástand hennar.

Sálfræðingur hefur greint stúlkuna með flókna áfallastreituröskun og hugrofseinkenni vegna erfiðrar skólagöngu. Hún hefur glímt við sjálfsvígshugsanir og nokkrum sinnum stokkið í sjóinn.

Móðirin treystir sér ekki til að koma fram undir nafni, dóttur sinnar vegna, en þykir nauðsynlegt að vekja athygli á því að ekki þrífist öll börn innan skólakerfisins. Hún hefur ítrekað reynt að ná til eyrna yfirvalda, ráðherra, þingmanna og fleiri. Sú eina sem hefur svarað henni er Halla Tómasdóttir, forseti Íslands. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er nú með mál stúlkunnar til skoðunar.

Er það mat foreldranna að stuðningi við stúlkuna í skólanum hafi verið ábótavant og að þau úrræði sem henni hafi boðist henti ekki, enda hafi vanlíðan hennar aukist jafnt og þétt á stuttri skólagöngu. Hún reyndi að segja kennurum og öðru starfsfólki hvað henni liði illa og að henni þætti erfitt að vera í skólanum. Hún fór út úr tímum, hékk inni á klósetti, skreið inn í skápa og stakk af úr íþróttatímum, svo dæmi séu tekin. Þegar ekki var á hana hlustað fór hún að pissa í sig og gera sér upp veikindi svo hún yrði sótt.

Gengið yfir mörk og brotin niður

Foreldrarnir telja að ítrekað hafi verið farið yfir mörk stúlkunnar, sem er meðal annars viðkvæm fyrir snertingu, með því að grípa í hana og halda henni. Þá hafi hún hægt og rólega verið brotin niður með ýmsum athugasemdum og refsingum vegna hegðunar og framkomu sem rekja megi til vanlíðanar hennar.

Stúlkan var í öðrum bekk greind með ADHD, athyglisvanda, lesblindu og hegðunarerfiðleika en á þessu ári fékk hún einnig einhverfugreiningu. Hefði sú greining komið fyrr hefði stuðningi við hana í skólanum mögulega verið öðruvísi háttað.

Sálfræðingur stúlkunnar telur að formlegt skólanám geti ekki átt sér stað meðan hugur hennar og líkami er fastur í að bjarga sér úr „upplifuðum ógnvekjandi aðstæðum“, sökum áfallastreitunnar, sem erfitt hefur verið að vinna með þar sem hún er sett aftur og aftur í aðstæður sem valda henni gríðarlegri vanlíðan.

Foreldrarnir sóttu því um að hafa stúlkuna í heimakennslu en því var hafnað þar sem þau eru ekki með kennsluréttindi. Þau sjá því fram á að stúlkan verði áfram utan skólaúrræðis, nema henni bjóðist einstaklingsmiðað úrræði þar sem einstaklingsmiðaðri námsskrá er fylgt. Helst myndu þau vilja fá að kenna henni heima og telja mikilvægt að sá valkostur sé til staðar fyrir foreldra í sérstökum tilfellum, án þess að kennsluréttinda sé krafist. Síðasti valkosturinn er að flytja til útlanda, þar sem þau fá leyfi fyrir heimakennslu.

Ekki fengið afsökunarbeiðni

Foreldrarnir lögðu fram formlega kvörtun til sveitarfélagsins vegna grunnskóla dóttur þeirra í fyrra, þar sem þau sökuðu skólann um vanrækslu og andlegt ofbeldi í garð stúlkunnar. Telja þau að vanrækslan hafi leitt til alvarlegra áfallastreitueinkenna hjá henni. Matsmaður á vegum Miðstöðvar skólaþróunar gerði óháða úttekt vegna málsins og komst að þeirri niðurstöðu að umhverfi kennara og kerfi skólans, sem ætti að styðja við þá, hefði brugðist og að mikilvægt væri að draga lærdóm af því.

Í skýrslu matsmanns segir að þrátt fyrir að sálfræðingar hafi mælt með einstaklingsmiðaðri námskrá og auknum stuðningi hafi stúlkan að mestu leyti verið látin fylgja námsefni bekkjarins, án slíkra úrræða. Þá hafi ráðgjöf kennslu- og virknimatsráðgjafa aðeins verið fylgt að hluta.

Er skólinn beðinn um að sýna ábyrgð í máli stúlkunnar og tryggja að framtíðarsamskipti verði gegnsæ og styðjandi. Þá er í tillögum að úrbótum lagt til að skólinn biðji bæði stúlkuna og foreldrana formlega afsökunar og að sveitarfélagið biðji einnig foreldrana afsökunar. Það hefur hins vegar ekki verið gert, að sögn móðurinnar.

Skólanum er einnig ráðlagt að yfirfara og bæta verklag í málsmeðferð og samskiptum við foreldra svo sambærileg mál hljóti fullnægjandi athygli og stuðning í framtíðinni.

Var mjög hvatvís og kom sér í hættu

Móðirin segir foreldrana núna syrgja lífsglöðu stúlkuna sem þau einu sinni áttu, því þetta var ekki alltaf svona.

„Í leikskóla var hún hamingjusamasta barn í heimi sem elskaði allt og alla, var ekki hrædd við neinn eða neitt. En þegar við skráðum hana í skólann þá létum við vita að hún væri mjög hvatvís og væri alveg týpan sem færi burt með ókunnugum eða kæmi sér í hættu. Hún er svo svakalega ofvirk og hvatvís.”

Frá upphafi lágu því fyrir skýrar upplýsingar frá foreldrum um að það þyrfti að fylgjast vel með stúlkunni. Hún væri til alls vís.

Stúlkan var byrjuð að taka ADHD-lyf áður en hún fékk greiningu því hún var svo hvatvís og með mikla hreyfiofvirkni. Þau svör fengust hins vegar frá skólastjóra að hún væri ekki nógu fötluð til að geta fengið einhverja aðstoð eða stuðning.

„Hún spurði okkur í djóki hvort við vildum hafa hana í eitt ár í viðbót í leikskóla,“ segir móðirin og vísar til skólastjórans. „Okkur fannst það kjánalegt þá en í dag þá hugsum við oft að við hefðum átt að taka því. Ef maður hefði vitað um allt það sem ætti eftir að ganga á.“

Grét á hverju kvöldi

Fyrsta árið í grunnskóla gekk þó vel, kannski betur en foreldrarnir þorðu að vona, en í öðrum bekk fór að halla undan fæti. Stúlkan fór að sýna vanlíðan og kvíðaeinkenni og ljóst var að henni leið illa í skólanum. Á því skólaári fór hún í gegnum greiningarferli og var niðurstaðan sú að hún væri með hamlandi ADHD. Hún sýndi einnig einkenni einhverfu en náði ekki greiningarviðmiðum á þeim tíma, líklega því ADHD-einkennin voru meira afgerandi.

„Hægt og rólega fór þetta allt niður á við og skilaboðin sem hún fékk frá kennurunum voru að hún yrði bara að læra að sýna þakklæti og gera sér grein fyrir hjálpinni sem væri verið að veita henni. Hún væri búin að ákveða þegar hún kæmi í skólann að það væri leiðinlegt,“ segir móðirin. Þá var stúlkan sjö ára.

„Hún var hægt og rólega brotin niður. Það fylgdu henni upplýsingar að það yrði að fylgjast með henni, hún væri að stinga af og koma sér í hættu, en það var ekki gert. Hún var oft ein að væflast um á ganginum.“

Hún var ekki tekin út úr bekknum heldur fór hún einfaldlega sjálf þegar henni fannst hún þurfa að komast úr aðstæðunum. „Svo var hún bara að hlaupa um allt eða að fikta í vaskinum og enginn að fylgjast með henni.“ Eldri systkini stúlkunnar sáu hana oft eina á göngunum og létu foreldrana þá vita, sem ítrekað óskuðu eftir því að hún fengi stuðning við hæfi. Samskipti foreldra og skóla voru framan af mjög góð og reglulegir teymisfundir voru haldnir. Samskiptin urðu hins vegar stirðari með tímanum þegar foreldrarnir upplifðu að ekki væri á þau hlustað.

„Þarna var hún samt hress og kát í lífinu. En það var alveg sama hvað við sögðum við kennarana, það var alltaf eins og það væri eitthvað að okkur. Við værum að búa eitthvað til því þau væru svo góð og sýndu henni skilning. Við vorum alltaf að biðja um frekari stuðning fyrir hana en það gerðist ekki neitt. Í þriðja bekk var hún komin alveg í lás og vildi ekki fara í skólann. Það var grátur og „meltdown“ á hverju kvöldi, sunnudagskvöldin voru hræðileg.“

„Hvernig get ég drepið sjálfa mig?“

Foreldrarnir lýstu ástandinu heima fyrir kennurum og reyndu að gera þeim grein fyrir því hvað stúlkunni liði illa yfir því að fara í skólann. Þeim var þá sagt að hún virtist alltaf glöð í skólanum og bent á að hún væri ekki eina barnið með ADHD.

„Hún fékkst ekki til að lesa heima og skólinn var orðinn algjör kvöð. Hún var átta ára þegar hún spurði okkur í fyrsta skipti: „Hvernig get ég drepið sjálfa mig svo ég þurfi ekki að fara í skólann?“ Við létum skólann vita af því en það var ekkert gert og ekkert tekið á þessu,” segir móðirin. Áfram voru viðbrögðin þau að stúlkan væri einfaldlega neikvæð og búin að ákveða að það væri leiðinlegt í skólanum.

Stúlkan mætti áfram í skólann þrátt fyrir að það tæki foreldrana langan tíma að koma henni út á morgnana og að hún segði ítrekað að sig langaði að deyja.

„Sumar nætur svaf hún ekki því hún var svo kvíðin yfir því að þurfa að fara í skólann. Kvíðinn fór upp úr öllu valdi.“

Í fjórða bekk var foreldrunum sagt að tekið yrði á málum en lítið gerðist. „Þarna var þetta orðið þannig að hún vildi bara deyja og skildi ekki af hverju við værum svona vond að pína hana í skólann. Skólinn væri gerður til að fara illa með börn. Væri eins og fangelsi.“

Eftir páska í fjórða bekk tóku foreldrarnir þá ákvörðun um að dóttir þeirra færi ekki aftur í skólann fyrr en hún fengi stuðning við hæfi. Hún var heima í fimm vikur en í kjölfarið bauðst henni einstaklingsstuðningur og þurfti ekki að vera inni í bekknum. Móðirin segir það hafa haft mjög jákvæð áhrif.

„Þá gekk allt rosalega vel. Hún upplifði sig örugga í skólanum og var viljug að fara skólann. Það var auðvitað mótþrói, hún vildi ekki alltaf læra, en það voru ekki alltaf þessi slagsmál.“

Stakk kennara með blýanti

Þeim var lofað að sama fyrirkomulag yrði haft í fimmta bekk, en það varð ekki raunin. Á fundi í upphafi skólaárs var foreldrunum tjáð að stúlkan fengi ekki sérstakan stuðning og gerð yrði krafa um að hún væri inni í bekk með öðrum bekkjarfélögum.

Móðirin brotnaði saman á fundinum. Hún sagðist ekki geta gert barninu sínu það að þvinga það í aðstæður þar sem því liði svo skelfilega illa. „Þau sögðu að við yrðum að treysta þeim, þau myndu passa upp á hana.“

Stúlkan sýndi strax mikla vanlíðan fyrstu dagana í fimmta bekk og glímdi við sjálfsvígshugsanir. „Á fyrstu fjórum dögunum þá hoppaði hún þrisvar sinnum út í sjó. Hún vildi bara deyja.“

Þar sem skólinn gat ekki veitt stúlkunni þann stuðning sem hún þurfti og komið til móts við þarfir hennar ákváðu foreldrarnir að taka hana alveg úr skólanum.

„Fyrstu fjóra dagana sem hún var í fimmta bekk sat ég heima og hugsaði hvort ég fengi barnið mitt lifandi heim í dag eða ekki. Er þetta dagurinn sem ég kveð barnið mitt?“

Stúlkan fékk inni í öðrum skóla sama í sveitarfélagi, þar sem einhver stuðningur bauðst, en móðirin segir það ekki hafa verið nóg þó allir hafi reynt að gera sitt besta. Stúlkan hafði þá upplifað svo mörg áföll tengd skólagöngunni, vanlíðanin var orðin svo mikil og traustið gagnvart skólastofnunum ekkert. Sá stuðningur sem bauðst hafi því í raun komið of seint.

„Þar endaði þetta á því að hún stakk kennara í höndina með blýanti því hann snerti hana.“ Stúlkunni þótti óþægilegt þegar hún var snert eða haldið í hana og gerði ítrekað grein fyrir því. Þær aðferðir voru þó áfram notaðar á hana.

Vildi fá að fara með byssu í skólann

Eftir þetta atvik var hún heima í nokkra mánuði. Svo var sett saman úrræði fyrir stúlkuna þar sem tveir starfsmenn komu heim til þeirra, sóttu hana og fóru með út úr húsi. Hún var jákvæð í upphafi en svo var of mikið sem minnti á skólann og kvíðinn helltist yfir hana að sögn móðurinnar. Foreldrarnir hafi því hafa tekið ákvörðun um að afþakka úrræðið.

„Sveitarfélagið hefur alltaf litið á þetta þannig að það séum við sem séum að „beila“ ekki, að barnið ráði ekki við þetta og þurfi öðruvísi nálgun og aðstoð,“ útskýrir móðirin.

Eftir að stúlkan hafði kastað sér í sjóinn nokkrum sinnum við upphaf fimmta bekkjar fór hún að ganga til sálfræðings sem greindi hana með áfallastreituröskun sem rekja mætti til skólagöngunnar, en mbl.is hefur gögn undir höndum sem staðfesta það.

„Hún (sálfræðingurinn) segir að það sé ekkert annað sem komi til greina en það og eftir því sem tíminn líður þá sér hún þetta betur. Allt bendi til að hún sé með flókna áfallastreituröskun. Hún var komin með væg hugrofseinkenni líka út af þessu. Það var alltaf verið að henda henni í sömu aðstæður aftur og aftur. Þarna var hún hætt að sofa á nóttunni og vildi bara deyja. Hún var farin að spyrja okkur hvort hún gæti fengið byssu, farið með í skólann sinn og skotið alla, skotið kennarana og krakkana. Hún vildi líka taka með sér hníf í skólann. Við létum vita af því.“

Áfram var hins vegar lögð áhersla á að stúlkan yrði að mæta í skólann.

Stendur svart á hvítu að kerfið brást

Móðirin segir að það færi betur á því að hafa fræðsluskyldu en skólaskyldu. Það er einmitt eitt af því sem Sara Rós Kristinsdóttir, tveggja barna móðir sem heldur úti síðunni Lífsstefna á samfélagsmiðlum þar sem hún fjallar um og vekur athygli á málefnum einhverfra, ADHD og geðheilsu, kom inn á í samtali við mbl.is um síðustu helgi. Hún sagði að áhugavert væri að skoða hvort auðveldara væri að koma til móts við börn sem glíma við taugaþroskaraskanir og vinna í þeirra málum ef hugtakinu skólaskylda yrði skipt út fyrir fræðsluskyldu í reglugerð. 

Foreldrar stúlkunnar reyndu að tilkynna skólann til Barnaverndar í fyrra en komust að því að það var ekki hægt. Þau höfðu þá samband við sveitarfélagið og sögðu að komið hefði verið illa fram við barnið þeirra, það hefði í raun verið vanrækt og beitt ofbeldi. Var þeim sagt að málið yrði tekið mjög alvarlega. Fenginn yrði óháður matsmaður til að gera úttekt á skólagöngu stúlkunnar.

Foreldrarnir áttu svo að fá að koma með athugasemdir þegar drög að skýrslunni væru tilbúin. Það stóðst hins vegar ekki og skýrslan skilaði sér ekki til foreldranna, þrátt fyrir að gengið væri á eftir henni. Það var ekki fyrr en þau höfðu samband við Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sem sendi póst á sveitarfélagið að þau fengu skýrsluna í hendurnar.

„Þar stendur svart á hvítu að kerfið hafi brugðist henni. Við viljum númer eitt að barnið okkar fái afsökunarbeiðni. Að hún viti að þetta er ekki að henni að kenna og að hún sé ekki ástæðan fyrir því að þetta fór svona. En þau vilja ekki gera það. Þau vilja hvorki biðja hana afsökunar né okkur.“

Upplifa að verið sé að refsa þeim

Á þessu ári fengu þau virknimatsráðgjafa heim til sín frá sveitarfélaginu, en stúlkan mundi eftir henni frá skólatengdum viðburðum og kom það illa við hana. Hún sagði ljóta hluti, kastaði dóti og sló til yngra systkinis síns. Ráðgjafinn sagðist sjá að barninu liði mjög illa og sagðist þurfa að tilkynna atvikið til Barnaverndar í þeirri von um að þau fengju meiri hjálp.

„Niðurstaðan úr því var að uppeldið okkar einkennist af markaleysi og þau vilja setja okkur í forsjárhæfnimat. Við erum með vottorð frá barnalækni og sálfræðingi um að við séum að gera allt rétt. Að við séum að nota aðferðir sem á að nota á barn í svona stöðu. Þú ert ekkert að fara í slagsmál, þú velur stað og stund hvenær þú tekur á því sem kemur upp,“ segir móðirin.

Það rímar við það sem fram kemur í greinargerð sálfræðingsins sem segist upplifa að foreldrarnir hafi brugðist við eins og mælt sé með fyrir börn með fjölbreyttar þarfir. Þau veiti stúlkunni öryggistilfinningu, ásamt skýrum ramma fyrir hegðun, samskipti og daglegt líf, ásamt því að gera hæfilegar kröfur á hana miðað við aldur, þroska og getu. Þetta sé stutt af upplýsingum frá stúlkunni sjálfri.

„Við upplifum að það sé verið að refsa okkur fyrir að gera mál við sveitarfélagið,“ segir móðirin.

Samkvæmt sálfræðingnum virðast kveikjurnar á því að varnarkerfi stúlkunnar taki völdin vera gríðarlega margar og fjölbreyttar. Þær tengjast þó aðallega því að vera í ýmiss konar umhverfi í sveitarfélaginu sem þau bjuggu í, sjá skólaumhverfi almennt, skólabókum, öðrum börnum og fullorðnum. Því að fá á sig kröfur, upplifa sig ekki ráða við kröfurnar og finna ekki til öryggis.

Taki ekki skyldu sína alvarlega

Foreldrarnir voru í sambandi við mennta- og barnamálaráðuneytið vegna málsins en fengu ekki viðbrögð fyrr en ári síðar, þrátt fyrir ítrekanir. Þá fylgdu svör frá sveitarfélaginu þar sem fram kom að ástandið á barninu væri jafn slæmt og raun bæri vitni því foreldrarnir sinntu ekki skólaskyldu. Foreldrarnir væru að bregðast. „Þau gaslýstu okkur svakalega.“

Sveitarfélagið heldur fram að foreldrarnir hafi hafnað öllum þeim úrræðum sem hafi boðist og kemur það fram í upplýsingum til ráðuneytisins. Skólinn í sveitarfélaginu sé því kominn í vanda með að sinna skyldum gagnvart skólasókn stúlkunnar.

Þá segir í bréfinu að reynt hafi verið að mæta vanda stúlkunnar með fjölbreyttum og einstaklingsmiðuðum leiðum og tryggja henni úrræði sem henta. Foreldarnir meti það hins vegar sem svo að stúlkan sé ekki í stakk búin til að nýta sér þessi úrræði.

Þá segir þar jafnframt að það sé á ábyrgð foreldra að börn mæti í skóla en foreldarnir virðast ekki taka þá skyldu alvarlega.

Varð allt önnur í nýju umhverfi

Um síðustu jól ákváðu þau að dvelja í útlöndum í fimm vikur, aðallega til að gefa stúlkunni frí frá hinu daglega amstri og fara með hana í nýtt umhverfi, en sálfræðingur stúlkunnar hefur mælt með því. Tóku foreldrarnir strax eftir jákvæðum breytingum á líðan og hegðun stúlkunnar.

„Hún sagði við okkur á flugvellinum þegar við vorum lent að hún vildi ekki lengur deyja. Allt í einu byrjaði hún að sofa á nóttunni, árekstrar við systkinin fóru minnkandi og hún tók meiri þátt í því sem við vorum að gera. Hún var allt önnur.“

Þegar nær dró heimferðinni fór hún hins vegar að sýna sömu hegðun aftur. Hún hætti að sofa og læsti sig inni í herbergi. „Hún hótaði að drepa sig ef við færum til baka og hótaði að týnast. Þá létum við sveitarfélagið vita að hún gæti ekki verið í því úrræði sem var í gangi.“

Í febrúar brugðu foreldrarnir á það ráð að sækja um heimakennslu fyrir stúlkuna, en líkt og áður sagði, var þeirri beiðni hafnað. „Við sögðumst vera til í hvaða úrræði sem væri ef hún þyrfti ekki að fara í skólann. Við getum gert hvað sem er og erum öll af vilja gerð en skólaumhverfið er of mikið fyrir hana. Við erum með þetta uppáskrifað frá sálfræðingnum hennar, en það er ekki samstarfsvilji þar.“

Vernda líf hennar og annarra

Fyrr á þessu ári tóku foreldrarnir ákvörðun, í samráði við lækni stúlkunnar og sálfræðing, um að flytja úr sveitarfélaginu í þeirri von um að hún fengi betri þjónustu annars staðar. En það hefur ekki gengið eftir. Móðirin segir Reykjavíkurborg þó hafa sýnt vilja til að koma til móts við hana, en ekkert hafi enn gerst í þeim málum.

Í sumar gengu þau því skrefinu lengra og tóku ákvörðun um að fara tímabundið úr landi, að minnsta kosti til að byrja með. Ef stúlkunni býðst ekki fljótlega úrræði sem hentar, þar sem henni líður vel, eru foreldrarnir ákveðnir í að flytja alfarið af landi brott. Fara eitthvert þar sem þau fá leyfi til að vera með heimakennslu.

„Við gerum þetta í samráði við lækninn hennar og sálfræðinginn svo það sé hægt að ná einhverjum bata svo það sé hægt að koma inn einhverju námi hjá henni. Það er ekki hægt að setja inn neitt nám á meðan hún er föst á stríðssvæðinu,“ útskýrir móðirin.

Þegar þau sjá fréttir af skotárásum í skólum í útlöndum þá hafa þau raunverulega hugsað að svona gæti barnið þeirra brugðist við því að þurfa að fara í skólann.

„Hún hefur hótað því að vilja sprengja upp skólann og drepa alla í skólanum. Þetta er bara stríðssvæði fyrir hana. En svör sveitarfélagsins eru alltaf á þá leið að það verði að koma henni í skólann. Við erum að vernda líf hennar og annarra með því að senda hana ekki í skólann.“

Fékk loks einhverfugreiningu

Í vor fór stúlkan í gegnum endurmat á greiningum hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Niðurstaðan var að stúlkan væri með einhverfu, ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og álag í félagsumhverfi.

Hún hafði þá sýnt einkenni sem bentu til einhverfu um árabil. Sálfræðingar sem mættu á teymisfundi í skólanum höfðu bent á það og spurt af hverju hún fengi ekki stuðning í samræmi við það. Af hverju það væri alltaf lögð svo mikil áhersla á að hún væri inni í bekk, sem var henni mjög erfitt.

„Hún var alltaf inni í bekk og var aldrei með einstaklingsnámsskrá. Hún var alltaf að fylgja bekknum í námi þótt hún væri langt á eftir þeim og vissi ekkert hvað var að gerast. Hún veit ekki einu sinni í hvaða bekk hún á að vera,“ segir móðirin.

„Við getum ekki gert barninu okkar það að senda það inn í íslenskt skólakerfi eins og það er í dag. Það er búið að mölbrjóta barnið okkar. Hún fór úr því að vera lífsglöð og treysta öllum, allt of mikið, í að vera hrædd við allt og alla. Hún er bara föst.“

„Hlustið á meðan börnin eru enn þá lifandi“

Þau verði með öllum ráðum að vernda barnið sitt. „Af hverju eigum við að senda barnið okkar í aðstæður sem eru því lífshættulegar. Hvernig foreldrar erum við ef við sendum hana eitthvert og vitum ekki hvort hún kemur lifandi til baka. Ef við lendum í einhverju veseni í kerfinu fyrir að vernda barnið okkar, þá verður það að vera þannig.“

Það sé skelfilegt að fólk þurfi að flýja land með börnin sín vegna úrræðaleysis.

„Svo sér maður endalaust fjallað í fjölmiðlum um einstaklinga sem hafa gefist upp af því kerfið brást þeim. Við viljum ekki að það þurfi að skrifa þannig grein þegar barnið okkar er dáið,“ segir móðirin og heldur áfram:

„Hlustið á meðan börnin eru enn þá lifandi. Barnið mitt er bara 12 ára, hún er ekki komin í vímuefnaneyslu eða afbrot, en ef við héldum áfram að senda hana í skólann þá færi hún eflaust þangað. Hún myndi finna sér leið til að deyfa þennan sársauka ef hún myndi ekki bara klára þetta sjálf. Það er miklu ódýrara að hjálpa henni núna heldur en þegar hún er komin þangað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert