Tillaga um að ráðist verði í áhættumat vegna fyrirhugaðrar Fossvogsbrúar var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar sl. miðvikudag. Er þar lagt til að metin verði áhætta gangandi og hjólandi vegfarenda á brúnni með tilliti til vindafars.
Þá verði einnig metin sú áhætta sem brúin kann að hafa í för með sér fyrir siglingastarfsemi í Fossvogi, einkum vegna þeirrar hættu að bátar sogist undir brúna, í straumum sem þar myndist í sjávarföllum.
Það var Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem lagði fram tillöguna, en afgreiðslu hennar var frestað til næsta fundar ráðsins.
Í samtali við Morgunblaðið segir Kjartan að í skýrslu um vindafar á fyrirhugaðri Fossvogsbrú komi fram að gera megi ráð fyrir 15-20% meiri vindstyrk á brúnni en á Reykjavíkurflugvelli. Segir hann að Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði, telji að búast megi við enn hvassari vindi á brúnni en gefið er til kynna í áðurnefndri skýrslu, enda sé viðnám sem vindur fær af jörðu mun meira á flugvellinum en yfir sjó. Einnig verði brúin í töluverðri hæð yfir yfirborði sjávar sem geti aukið vindstyrk verulega.
Segir Kjartan að bent hafi verið á að sú þrenging sem unnið er að í Fossvogi vegna brúarsmíðinnar auki straumhraða undir brúnni og að slíkur straumur geti orðið illviðráðanlegur fyrir litla báta og seglskútur. Æskilegt sé að þessir áhættuþættir verði skoðaðir gaumgæfilega áður en framkvæmdir hefjist við sjálfa brúna og metið hvort grípa þurfi til sérstakra aðgerða vegna þeirra.
Kjartan bendir einnig á að í það stefni að byggingarkostnaður brúarinnar verði gríðarlegur. Lægsta tilboð í brúarsmíðina hafi verið þriðjungi yfir kostnaðaráætlun og nú sé útlit fyrir að kostnaður við brúna ásamt landfyllingum beggja vegna Fossvogs verði 11 milljarðar króna, margfalt hærri en lagt hafi verið upp með.
Hann segir að þegar tilboð í brúarsmíðina hafi verið opnuð nýverið hafi komið í ljós að lægsta tilboð hafi verið tæpir 7,9 milljarðar króna, en reikna megi með að kostnaður við landfyllingar frá Reykjavík og Kópavogi verði þrír milljarðar hið minnsta. Kjartan gagnrýnir að kostnaðaráætlanir hafi verið vanmetnar og nefnir að þegar hann hafi leitað eftir upplýsingum um áætlaðan kostnað, hafi því verið svarað til af hálfu borgarinnar í árslok 2022 að áætlaður kostnaður væri 2.250 milljónir. Augljóst væri að sú tala hefði verið röng og veltir hann upp þeirri spurningu hvort kostnaðartölum hafi vísvitandi verið haldið frá kjörnum fulltrúum í því skyni að afla stuðnings við verkefnið.
„Það bendir flest til þess að Fossvogsbrúin verði óarðbær, eins og reyndar borgarlínuverkefnið í heild. Það eru margar aðrar brýnni framkvæmdir í samgöngum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, þar sem vegakerfið liggur víða undir skemmdum,“ segir Kjartan.
„Ég tel rétt að endurskoða Fossvogsbrúarverkefnið í heild og meta hvort það sé í raun 11 milljarða virði. Það er hægt að stórbæta almenningssamgöngur á milli Kópavogs og Nauthólsvíkur með margfalt minni tilkostnaði. Þannig mætti lagfæra gamlan veg í Öskjuhlíð sunnanverðri og gera hann þannig úr garði að hann væri eingöngu fyrir strætisvagna, ásamt gangandi og hjólandi umferð, eins og Fossvogsbrúnni er ætlað að vera. Slík lausn er bæði hagkvæmari og fljótlegri en bygging rándýrrar brúar yfir Fossvog,“ segir Kjartan.
Fossvogsbrú
Kostnaður 11 milljarðar
Mjög hár byggingarkostnaður
Brúarsmíði 7,9 milljarðar
Landfyllingar 3 milljarðar
Margfalt ódýrari kostur í boði
Verkefnið verði endurskoðað
Óarðbær framkvæmd
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
