Borgin kynnir nýjungar: „Jólaport“ frá 15. nóvember

Róbert Aron deildi teikningum af Jólaportinu á kynningarfundinum í dag.
Róbert Aron deildi teikningum af Jólaportinu á kynningarfundinum í dag. Skjáskot/Reykjavíkurborg

Endurnýjun Kolaportsins mun meðal annars fela í sér jólamarkað þar sem finna má jólahús, jólabása, jólabar með skemmtilegu úrvali af jóladrykkjum og jólaviðburði.

Jólaportið verður opið um helgar frá 15. nóvember og fram að jólum. Leit stendur nú yfir að stærsta jólatré Íslands.

„Þarna verður útijólamarkaður – inni,“ sagði Róbert Aron Magnússon, framkvæmdastjóri Götubita ehf., á kynningarfundi borgarstjóra um atvinnulífið og uppbyggingu innviða í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

„Jólalegasti markaðurinn á Íslandi í dag, fyrr og síðar,“ sagði Róbert Aron.

„Þarna verður útijólamarkaður – inni,“ sagði Róbert Aron.
„Þarna verður útijólamarkaður – inni,“ sagði Róbert Aron. Skjáskot/Reykjavíkurborg

Framkvæmdir á nýju veitingasvæði hefjast í janúar

Róbert Aron og Einar Örn Einarsson tóku nýverið við rekstri Kolaportsins en báðir búa þeir yfir mikilli reynslu.

Róbert Aron hefur meðal annars verið leiðandi í matar- og „pop up“-viðburðum á Íslandi undir formerkjum Götubita ehf. og Einar Örn er stofnandi Serrano-skyndibitakeðjunnar á Íslandi, en hann hefur einnig stofnað og rekið veitingastaði og mathallir erlendis.

Að sögn Róberts vilja þeir leggja áherslu á Íslendinga og fjölskyldufólk við endurnýjunina og reyna að koma þeim sem leita í Kringluna og Smáralind um helgar aftur í miðbæinn.

„Það vantar meira af þeim sem hafa ekki heimsótt kolaportið síðan 2009, eða 2011 eða 2012,“ sagði Róbert Aron. Framkvæmdir á nýju veitingasvæði hefjast í janúar og verður þar úrval af mat og drykk, tónlist og viðburðum.

Þá verður krakkasvæði, loppumarkaður, antíkúrval, þar með talið skemmtilegt samstarf með Góða Hirðinum, og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert