„Ég held við séum að missa stjórn á þessu“

Halldór Laxness ræðir við mbl.is um afa sinn, Halldór Laxness.
Halldór Laxness ræðir við mbl.is um afa sinn, Halldór Laxness. Samsett mynd

„Ég hef engin svör, bara áhyggjur,“ segir barnabarn og nafni Nóbelskálds okkar Íslendinga, Halldór Laxness Halldórsson, við þeim fregnum að bækur afa hans séu á útleið úr framhaldsskólum.

Hann telur að um sé að ræða uppgjöf á versta tíma gagnvart íslenskunni og spyr hvort hin bókelskandi þjóð í norðri sé nú orðin hin símelskandi þjóð „einhvers staðar í ballarhafi“.

Í stað bókmenntaarfsins séu pulsur kannski orðnar nýja „identitíið“ okkar.

„Kannski erum við bara fólk sem finnst pulsur góðar.“

Ástæðan fyrir uppgjöfinni verri

Innan við þriðjungur framhaldsskólanema les nú skáldsögu eftir Laxness sem hluta af skyldunámi sínu í íslensku og þar af er Sjálfstætt fólk aðeins lesin í fjórum skólum af 29.

Íslendingasögurnar eru einnig á undanhaldi, eins og fram kom þegar Morgunblaðið greindi frá þessari stöðu í gær.

„Ef þú spyrð mig hvað mér finnst sem ættingja Nóbelskáldsins, að það sé hætt að kenna þetta, þá finnst mér það mjög sorglegt,“ segir Halldór, betur þekktur sem Dóri DNA.

„En verandi nútímamaður þá finnst mér ástæðan þeim mun sorglegri, að börnin ráði ekki við þetta. Unga fólkið ræður ekki við þetta.“

Hann bendir á að sala á bókum Laxness sé nú hvorki meiri né minni en áður. Það séu aftur á móti ferðamenn, ekki Íslendingar, sem viðhaldi henni.

Hundruð bóka skrifaðar á fornöld

„Og veistu hvað – ég fór inn á TikTok í fyrsta skiptið fyrir fjórum dögum síðan og ég held við séum að missa stjórn á þessu.“

Á íslenskunni?

„Á samfélaginu bara. Og ég held við séum að missa stjórn á því fallega sem við eigum. Og ég meina – okkar þjóðareinkenni var alltaf okkar bókelska þjóð í norðri og hér á fornöld voru skrifaðar þrjú hundruð bækur á meðan það voru skrifaðar nokkrar á Norðurlöndunum.“

Hann segir sorglegt að þetta þjóðareinkenni sé að mást úr menningunni og að svo virðist sem ekkert komi í staðinn.

Tár, bros og takkaskór í stað Sjálfstæðs fólks?

Nú hefur maður heyrt þá gagnrýni að það sé kannski bara frekar mikil íhaldssemi að ætla að þröngva Sjálfstæðu fólki eða öðru þungu bókmenntaverki á börn. Unglingar tengi ekkert við þetta lengur.

„En eigum við ekki að vera að kenna okkar eigin bókmenntasögu? Kannski á að skipta út Sjálfstæðu fólki fyrir Tár, bros og takkaskó. Ráða krakkarnir við það?“ spyr Dóri.

„Eins og þessi framhaldsskólakennari sem þið töluðuð við sem segir bara að þetta var tilgangslaust að reyna að fá þau til að lesa þetta. Og þetta er allt bara jafn sorglegt. [...] Þetta virðist vera alveg hrikaleg uppgjöf á versta tíma.“

Allt jafn sorglegt

Hann leggur til að við gefum enn frekar í.

„Setja fyrir enn leiðinlegri bækur, enn þyngri verk,“ segir hann og spyr blaðamann hvort Brennu-Njáls saga sé enn kennd í framhaldsskólum.

Ég held að bæði Íslendingasögurnar og þyngri bókmenntaverk séu á útleið.

„Þá þykir mér þetta allt jafn sorglegt. Að hin bókelska þjóð í norðri er bara orðin hin símelska þjóð einhvers staðar í ballarhafi. Eins og ég segi, það er örugglega of seint að spyrna við núna.“

Hann telur Íslendinga aðeins þurfa að staldra við og velta fyrir sér hvað það er sem gerir okkur íslensk.

„Eins og ég segi. Ég nenni ekkert að vera að skammast í neinum. Þetta virðist bara vera blákaldur raunveruleiki og mér finnst það bara leiðinlegt. Ég get ekkert gert nema reynt að pína börnin mín í að lesa Sjöstafakverið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert