Einn var handtekinn eftir átök í miðborginni í gærkvöld eða í nótt. Var sá vistaður í fangaklefa vegna ástands en hann er grunaður í málinu.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Alls eru 53 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu og gista fjórir í fangageymslum nú í morgunsárið.
Lögregla var kölluð til vegna umferðaróhapps en þar hafði bifreið verið ekið upp á umferðareyju. Í ljós kom að ökumaður var ölvaður og var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Hann var svo vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Tilkynnt var um innbrot í verslun í miðborginni. Við frumrannsókn lögreglu kom í ljós að aðeins smámynt virðist hafa verið tekin úr afgreiðslukassa og er málið til rannsóknar.
Einn var handtekinn grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna og þá var lögreglan kölluð til vegna þjófnaðar í matvöruverslun og var málið leyst með vettvangsskýrslu.

