Flestir myndu kjósa Samfylkinguna

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langflestir myndu kjósa Samfylkinguna ef gengið yrði til þingkosninga í dag. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar Prósents sem var framkvæmd 16. til 30. september.

Af þeim sem tóku afstöðu myndu 32% kjósa Samfylkinguna, 18,3% Sjálfstæðisflokkinn, 14,4% Viðreisn, 9,9% Miðflokkinn, 7,6% Flokk fólksins, 7,1% Framsóknarflokkinn, 5,2% Pírata, 2,7% Sósíalistaflokkinn, 2,1% Vinstri græn og 0,7% Lýðræðisflokkinn.

Fylgi Samfylkingarinnar er marktækt meira hjá konum en körlum eða 37% á móti 28%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er marktækt meira hjá körlum en konum eða 21% á móti 15%. Fylgi Miðflokksins er marktækt meira hjá körlum en konum, eða 13% á móti 6%.

Fylgi Viðreisnar er marktækt meira hjá einstaklingum á aldrinum 35 til 54 ára í samanburði við 55 ára og eldri. Fylgi Framsóknarflokksins er marktækt meira hjá 18 til 34 ára en þau sem eldri eru, að því er segir í niðurstöðum skoðanakönnunarinnar.

Fylgi Flokks fólksins er marktækt meira hjá 35 ára og eldri en hjá þeim sem yngri eru. Fylgi Pírata er marktækt meira hjá 18 til 34 ára en hjá þeim sem eru 55 ára og eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert