„Reglugerðin á ekki að hafa áhrif á flugrekendur í fullum rekstri, en frumreglan í öllum rekstri er að fyrirtæki geri upp skuldir sínar. Það er líka grundvallarregla að gjöld vegna notkunar loftfara á flugvöllum og flugumsjón verði gerð upp,“ segir Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Viðbragða hans var leitað við þeim ummælum Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair í Morgunblaðinu, sl. miðvikudag, að nýsett reglugerð ráðherrans um að ekki megi afskrá flugvélar úr íslenskri loftfaraskrá, fyrr en gert hafi verið upp við Isavia, væri vanhugsuð og gæti haft alvarleg áhrif á rekstur Icelandair. Leigusalar flugvéla hefðu sett sig í samband við félagið og bent á að hin nýja reglugerð gæti falið í sér aukna áhættu í viðskiptum við íslenska flugrekendur.
Umrædd reglugerð var sett fimmtudaginn í síðustu viku, en sama dag flaug af landi brott eina flugvél hins gjaldþrota flugfélags Play sem stödd var hér á landi þegar félagið fór í þrot. Fór vélin án þess að upp hefði verið gerð hálfs milljarðs króna skuld félagsins við Isavia vegna lendingargjalda.
Eyjólfur segir að reglugerðin varði fyrirtæki sem fari í þrot, en ekki fyrirtæki í fullum rekstri.
„Það er mjög mikilvægt að flugrekandi standi skil á gjöldum,“ segir Eyjólfur og segist ekki skilja gagnrýnina.
Segir Eyjólfur að ákvæði sé í lögum um loftferðir sem mæli m.a. fyrir um að rekstraraðila flugvallar sé heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugvallar sem og vegna þeirrar aðstöðu, búnaðar og mannvirkja sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýti á flugvöllum. Skuli þau gjöld tryggð með lögveði í loftförum eða loftfarshlutum eiganda eða umráðanda loftfars sem skráð er hér á landi. Gjöld vegna flugumsjónar skuli einnig tryggð með lögveði í því loftfari sem í hlut eigi, en lögveð er trygging fyrir skuld.
„Þegar við fórum að rýna þetta sáum við að það er gat í lögunum hvað varðar afskráningu loftfara. Þar er hins vegar reglugerðarheimild sem segir að loftfar skuli tekið af skrá þegar öðrum skilyrðum er fullnægt sem ráðherra tilgreinir í reglugerð. Reglugerðin er einfaldlega til þess að tryggja að skuldir lögveðshafa verði gerðar upp. Lögveðið væri haldlaust ef það skortir þessi skilyrði við afskráningu loftfara. Til hvers væri að hafa ákvæði í lögum um lögveð sem hafa ekki þýðingu. Vilji löggjafans er alveg skýr hvað þetta varðar,“ segir Eyjólfur.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
