Gafst að lokum upp á að kenna Laxness

Frá Gljúfrasteini, húsi skáldsins.
Frá Gljúfrasteini, húsi skáldsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskukennari sem áður kenndi tvær til þrjár skáldsögur Halldórs Laxness, fyrir styttingu framhaldsskólanna, gafst upp á því að kenna skáldsögur hans í fyrra eftir að nemendur hættu að lesa heima.

Morgunblaðið greindi í gær frá því að innan við þriðjungur framhaldsskóla kenni skáldsögu eftir Halldór Kiljan Laxness sem hluta af skylduáfanga í íslensku á þessu ári, eða níu skólar af 29.

Stytting skólanna ein af orsökunum

Þetta byggir á svörum við fyrirspurn Morgunblaðsins til allra framhaldsskóla landsins.

Í þeim greina margir kennarar frá því að skáldsögur Laxness hafi verið teknar af leslistum síðustu ár.

Þá benda þó nokkrir á styttingu framhaldsskólanna úr fjórum árum í þrjú sem eina af orsökum þessa, en ákvörðun um þá styttingu var tekin árið 2014.

Halldór Laxness árið 1969, í íbúð sinni við Fálkagötu.
Halldór Laxness árið 1969, í íbúð sinni við Fálkagötu. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Finnst mikið vanta 

Í svari sínu við fyrirspurn Morgunblaðsins segir einn kennari til að mynda frá því að fyrir styttingu framhaldsskólanna úr fjórum árum í þrjú hafi hann alltaf kennt 2-3 skáldsögur Laxness í skylduáföngum í íslensku.

Eftir styttinguna var kennsla í íslensku skorin niður og ákvað kennarinn því að lesa Sjálfstætt fólk með nemendum sínum en hætta kennslu Íslandsklukkunnar og Sölku Völku.

„Nemendur áttu að sinna lestrinum heima og því miður fækkaði þeim alltaf sem það gerðu. Þess vegna ákvað ég fyrir ári að prófa að láta þau lesa styttri bók, Atómstöðina, en þar sem jafn fáir lásu hana og Sjálfstætt fólk þá gafst ég á endanum upp. Mér finnst mikið vanta eftir að þessu var sleppt – en svona er bara þróunin,“ skrifar kennarinn.

Orðaforði á undanhaldi og minni lesskilningur

Fleiri kennarar sem hafa tekið bækur Laxness af leslistum á síðustu árum nefna styttingu framhaldsskólanna einnig sem ástæðu, en einhverjir nefna líka orðaforða á undanhaldi og minni lesskilning meðal nemenda.

Lestur bókanna hafi verið farinn að taka nemendur lengri tíma en áður og tíminn til kennslu af skornum skammti.

Nánari umfjöllun málið má finna í Morgunblaðinu í gær og í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka