Yfirskattanefnd hefur staðfest að færa eigi manni til tekna mismun á kaupverði bíls, sem hann keypti af fyrirtæki sem hann hafði veitt forstöðu, og markaðsverði á sambærilegum bíl.
Ríkisskattstjóri hafði upphaflega fært manninum til tekna tæpar 4 milljónir króna vegna bílaviðskiptanna en yfirskattanefnd lækkaði þá upphæð í tæpar 2,8 milljónir.
Fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar að fyrirtækið keypti árið 2017 nýjan Range Rover sem þá kostaði 20 milljónir. Fyrirtækið keypti 85% hlut í bílnum fyrir 17 milljónir en þáverandi forstjóri 15% fyrir 3 milljónir.
Ári síðar lét forstjórinn af störfum og var í tengslum við starfslokin boðið að kaupa hlut fyrirtækisins í bílnum fyrir tæpar 9,9 milljónir króna.
Ríkisskattsstjóri taldi að bíllinn hefði verið seldur á undirverði og færði forstjóranum fyrrverandi til tekna tæpar 4 milljónir á skattframtali hans árið 2019 vegna tekjuársins 2018. Sá úrskurður var kærður til yfirskattanefndar á þeirri forsendu að kaupverðið á bílnum hefði ekki verið óeðlilega lágt.
Eftir nokkrar rannsóknir, þar sem meðal annars var reynt að leiða í ljós hvað eðlilegt markaðsverð á sambærilegum bíl hefði verið árið 2018, komst yfirskattanefnd að þeirri niðurstöðu að miða mætti matsverð bílsins við ásett verð hans samkvæmt mati bílaumboðs, tæpar 14,9 milljónir króna. Samkvæmt því hefði eðlilegt verð fyrir þann 85% hlut, sem keyptur var af fyrirtækinu, verið rúmar 12,6 milljónir króna eða tæpum 2,8 milljónum hærra en forstjórinn fyrrverandi greiddi. Úrskurðaði yfirskattanefnd að færa ætti manninum þá fjárhæð til tekna á árinu 2018.
Yfirskattanefnd hafnaði kröfu mannsins um að fellt yrði niður 25% álag á álagningu vegna þessara viðbótartekna en álagið var þó lækkað til samræmis við lækkun tekjuviðbótarinnar. Einnig hafnaði yfirskattanefnd kröfu um að málskostaður yrði greiddur úr ríkissjóði.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
