Hrefna Dögg hlýtur 360 milljóna styrk

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir.
Hrefna Dögg Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir, lektor við Lagadeild Háskóla Íslands, hefur hlotið tæplega þriggja milljóna dollara styrk, jafnvirði rúmlega 360 milljóna króna, frá alþjóðlega rannsóknarsjóðnum Wellcome Trust.

Styrkur Hrefnu rennur til rannsóknarverkefnis sem ber heitið „Fostering Reciprocity in Environmental DNA science through Yielded stewardship, Just benefit, and Accountability“ (FREYJA).

FREYJA miðar að því að tryggja betur gagnkvæmni í vísindarannsóknum, m.a. sanngjarna skiptingu ávinnings sem verður til í kjölfar hagnýtingar vísindaniðurstaðna og gagnavinnslu í tengslum við umhverfiserfðafræði. Sérstök áhersla er á samvinnu vísindamanna og frumbyggjasamfélaga í verkefninu, að því er segir á vef HÍ.

Talið geta umbylt matvæla- og lyfjaframleiðslu

Þar segir einnig að umhverfiserfðafræði snúist m.a. um að safna nútíma- eða fornu erfðaefni lífvera úr umhverfi, eins og jarðvegi, sjó og lofti, í stað þess að sækja það í lífveruna sjálfa. Hagnýting umhverfiserfðavísinda sé talin geta umbylt matvæla-, lyfja- og snyrtivöruframleiðslu og þannig stuðlað að velferð bæði jarðarinnar og mannkyns.

Þá segir að Hrefna Dögg sé aðalrannsakandi og styrkhafi í verkefninu en hún hefur undanfarin ár rannsakað lögbundnar kröfur til vísindarannsókna á heilbrigðissviði, m.a. gagnkvæmni gagnvart samfélögum í tengslum við aðgang að heilbrigðisgögnum.

Nánar um málið hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert