Leyfi afturkölluð vegna vanskila

Bæði sýslumaðurinn og Skatturinn standa í aðgerðum.
Bæði sýslumaðurinn og Skatturinn standa í aðgerðum. Samsett mynd/mbl.is/Hanna Andrésdóttir/Kristinn Magnússon

Sýslumaðurinn sendi tölvupóst á rekstraraðila nokkurra veitingastaða í gærmorgun þar sem leyfi voru afturkölluð og farið fram á að á opinberum gjöldum yrðu gerð skil.

Þetta segir Einar Bárðarson framkvæmdastjóri SVEIT, Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, í samtali við mbl.is.

Greint hefur verið frá því að lögregla hafi lokað Café Adesso í Smáralind í dag og viðskiptavinir þurft að yfirgefa staðinn. Samkvæmt heimildum mbl.is fór lögregla einnig í gær á kaffihúsið, lokaði því og innsiglaði að beiðni Skattsins. Innsiglið mun svo hafa verið rofið í gærkvöldi og staðurinn opnaður að nýju. Lögreglan lokaði því staðnum aftur í dag.

Einar segist ekki geta tjáð sig um einstaka málefni en nokkrir aðilar hjá samtökunum hafi haft samband við hann í gærmorgun vegna þessa. Þeir hafi talið sig vera með samkomulag við Skattinn og því þótt aðgerð sýslumanns of hörð. Þeir hafi skilið stöðuna sem svo að þrátt fyrir að þeir greiddu skuldina yrðu þeir samt að sækja um leyfi á ný.

„Hvernig þau mál voru til lykta leidd í gær og í dag er ég ekki alveg klár á en þessum sem höfðu samband við mig fannst aðgerðin svolítið hörð í ljósi þess að þeir töldu sig vera með virkt samkomulag við Skattinn,“ segir Einar. Hann hafi ekki frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Skatturinn geti þá lokað fyrirtækinu með aðstoð lögreglu

„Skatturinn er öðru hvoru í aðgerðum gagnvart aðilum sem standa ekki skil á sköttum, skýrslum eða öðrum gjöldum. Þetta getur endað með því að Skatturinn loki fyrirtækinu með aðstoð lögreglu.“

Þetta segir Snorri Olsen ríkisskattstjóri í samtali við mbl.is.

„Við tökum stundum ákveðnar greinar fyrir, þá erum við að skoða hvernig skil eru í tilteknum atvinnugreinum. Þá heyra menn kannski meira að það séu samkynja aðilar sem séu að lenda í þessum aðgerðum hjá okkur,“ segir hann.

Sé sýslumaðurinn kominn í málið sé málið komið frá Skattinum, sem sé þá að leita eftir tryggingu fyrir viðkomandi greiðslum í eignum viðkomandi, en þá sé um að ræða fjárnám.

„En þegar þetta er lokun þá er það bara lögreglan sem hjálpar okkur í því,“ segir hann. Einhverjar slíkar aðgerðir hafi átt sér stað síðustu daga en ekki sé unnt að veita nánari upplýsingar um þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert