Margrét Kristín Blöndal, eða Magga Stína, er laus úr haldi Ísraela og er stödd í flugvél á leiðinni til Istanbúl í Tyrklandi.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, dóttir hennar, staðfestir þetta en kveðst ekki vita hvernig meðferðin á henni hefur verið.
„En við búumst við að hún gæti verið í samræmi við það sem fyrrum fangar Ísraels hafa þurft að búa við,” segir hún og reiknar með því að móðir sín sé þreytt og þurfi tíma til að jafna sig á þessari lífsreynslu.
„Við hlökkum til að taka á móti henni, þetta eru ekki búnir að vera auðveldir dagar,” segir Salvör. Hún býr í Amsterdam og þangað mun Magga Stína fara og hvíla sig í nokkra daga að loknu fluginu til Istanbúl.
Salvör fékk í morgun staðfest að móðir sín væri laus úr haldi Ísraela. Hún hefur ekki náð sambandi við hana en gat sent skilaboð til hennar í gegnum finnskan ræðismann þar sem stuðningskveðjur voru sendar.
„Ég bíð enn eftir að heyra hvort utanríkisráðherra fordæmi það að íslenskur ríkisborgari sé numinn á brott á alþjóðlegu hafsvæði við að fara með neyðaraðstoð til sveltandi fólks,” segir hún jafnframt.
Spurð hvernig henni leið við að fá fregnirnar í morgun kveðst hún hafa verið ofsalega fegin, rétt eins og allir vinir móður hennar og ættingjar.
„Jafnvel þó að við vissum úti í hvað hún væri að fara er það samt erfitt að horfa upp á aðstandanda sinn í haldi hers sem er ekki beint þekktur fyrir að virða mannréttindi fólks, þó að ég viti að meðferðin á henni eru líklega algjörir smámunir miðað við meðferðina á palestínskum föngum, sem maður hefur fræðst um að þeim sé gert í fangelsum í skýrslum mannréttindasamtaka.”