Hnignun lýðræðisins er sjáanleg víða um heim og hætta er á að sú þróun verði sjáanleg á Íslandi á næstu árum.
Þetta var á meðal þess sem rætt var á aðalmálstofu Lögfræðidagsins sem fer fram á Hilton Nordica hótelinu í dag. Umræðuefni málstofunnar var staða lýðræðisins og hvort það stæði á tímamótum.
Birgir Ármannsson, fyrrverandi alþingismaður og lögmaður, var málstofustjóri, Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor og rektor Háskólans í Reykjavík, og Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðiprófessor og rektor Háskóla Íslands, voru framsögumenn.
Í pallborði sátu Pawel Bartoszek, alþingismaður og formaður utanríkismálanefndar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.
„Lýðræðið er í tilvistarkreppu,“ sagði Silja Bára í ræðu sinni.
Hún sagði að það ætti við víðast hvar lýðræðið hafi skotið niður rótum. Hún sagði hnignunina vera sýnilega og henni þyrfti að snúa við.
Í svipaðan streng tóku aðrir framsögumenn og voru flestir á sama máli að lýðræðið hefði farið hnignandi víða um heim. Í því samhengi voru Ungverjaland og Bandaríkin mikið til umræðu.
Erindi Ragnhildar lagaprófessors beindist að því hvaða þættir væru til staðar í íslenskri stjórnskipan sem tempra eða afmarka möguleika ólýðræðislegra afla á yfirtöku ríkisins.
Þar nefndi hún m.a. að þingræðið geti dregið mjög úr möguleikum valdhafa til að misnota vald sitt, sér í lagi ráðherra. Hins vegar sagði hún að helstu veiku blettir íslenskrar stjórnskipunar væri óskýr stjórnarskrá þar sem vald forseta Íslands væri skýrasta dæmið.
„Stjórnarskráin er óskýr, það er fullt af fólki sem túlkar hana öðruvísi en hefur hefðbundið verið gert. Við höfum t.d. ítrekað séð forsetaframbjóðendur sem hafa ákveðnari hugmyndir um forsetaembættið en flestir,“ segir Ragnhildur og nefnir sem dæmi að sumir frambjóðendur hafi túlkað stjórnarskrána á þann hátt að forseta sé heimilt að skipa ráðherra, rjúfa þing og þar fram eftir götunum.
„Þetta er misskilningur en það er hætta á að ef einhver vill taka meira til sín heldur en heimilt er samkvæmt stjórnarskránni er vont að vera með óskýrar reglur,“ segir Ragnhildur.
Aðspurð segir Ragnhildur að stjórnskipun landsins tryggi það ágætlega að kjósendur hafi alltaf síðasta orðið ef valdhafar ætla að teygja sig of langt.
„Það er fullt af hemlum en ef kjósendur ætla kosningar eftir kosningar í hálf-einræðislegar pælingar þá er fátt í stjórnskipuninni sem stoppar það, enda erum við lýðræðisríki,“ segir hún að lokum.