Segir eðlilegt að gefa út afmælisleiðbeiningar

Stungið er upp á tveimur mismunandi leiðum við að bjóða …
Stungið er upp á tveimur mismunandi leiðum við að bjóða í afmæli grunnskólabarna. Samsett mynd

Sérfræðingur á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar telur ekki óeðlilegt að borgin gefi út leiðbeiningar um hvernig fjölskyldur geta boðið í afmæli grunnskólabarna.

Raunar hafi verið ákall eftir slíkum leiðbeiningum. Allur gangur sé á því hvernig afmælisboðum sé háttað eftir skólum.

Leiðbeiningaskjal mannréttindaskrifstofu borgarinnar um afmælishópa hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum en þar er m.a. mælt gegn því að bjóða í afmæli eftir kyni barns, þar sem slíkt geti verið útilokandi og vinni gegn markmiðum jafnréttislaga.

Þá eru tvær leiðir kynntar sem gætu verið góð lausn við þessari áskorun, um hverjum eigi að bjóða í barnaafmæli.

Leiðbeiningaskjalið er á heimasíðu borgarinnar. Það er nokkurra ára gamalt …
Leiðbeiningaskjalið er á heimasíðu borgarinnar. Það er nokkurra ára gamalt en hefur nú vakið athygli á samfélagsmiðlum. Samsett mynd

Nokkurra ára gamalt skjal

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, segir að ekki sé um að ræða tilmæli, reglur eða fyrirmæli.

Heldur sé þetta upplýsinga- eða fræðsluskjal sem borgin hafi gefið út fyrir nokkrum árum sem skólar eða foreldrahópar geti stuðst við.

Hún tekur fram að skjalið hafi ekki verið sent út til neins heldur sé það á heimasíðu borgarinnar, á stað sem sé ekki einu sinni áberandi.

Er skrítið að Reykjavíkurborg sé að veita leiðbeiningar um hvernig eigi að halda barnaafmæli?

„Nei, það var í rauninni ákveðin köllun eftir þessu vegna þess að við [hjá mannréttindaskrifstofu borgarinnar] erum í stöðugu samtali og samstarfi við skólana og við skóla- og frístundasvið um alls konar málefni. Eins og hefur komið fram þá eru í sumum skólum viðmið eða reglur um afmæli og þá er náttúrulega eðlilegt, fyrst þau voru að velta þessu fyrir sér, að við komum með leiðbeiningar um hvernig væri hægt að gera þetta sem felur einmitt ekki í sér þessa kynjaskiptingu.“

Tvær leiðir kynntar

Í skjalinu sem um ræðir er stungið upp á tveimur mismunandi leiðum við að bjóða í afmæli grunnskólabarna.

Annars vegar bekkjarafmæli þar sem nokkur börn halda afmæli saman og öllum bekknum er boðið. Þannig geti til dæmis öll börn fædd í október og nóvember haldið sameiginleg afmæli.

Hins vegar er stungið upp á því að skólinn velji leið til að skipta bekknum í afmælishópa út frá öðru en kyni til að skapa minni og viðráðanlegri hópa.

„Sem dæmi fer barnið sem á fyrst afmæli á árinu í hóp A, barnið sem á næst afmæli fer í hóp B, þriðja afmælisbarn ársins í hóp A og svo koll af kolli,“ segir í skjalinu.

Tekið er þó fram að best sé að skólinn eða kennari velji leiðina sem sé farin og kynni hana strax í upphafi skólaárs.

Ekkert er minnst á að foreldrar eða börnin sjálf ráði þessu.

Innlegg í umræðu um afmælisboð

En hvers vegna gefur Reykjavíkurborg út tilmæli um afmælisboð?

Að sögn Þórhildar er mjög mismunandi eftir skólum, árgöngum og jafnvel bekkjum hvernig afmælum sé háttað. 

Í sumum tilfellum gefi skólar út tilmæli og annars staðar komi leiðbeiningar frá foreldrafélögum.

„Þessar leiðbeiningar voru ákveðið innlegg inn í þá umræðu um að kannski væri einmitt sniðugt að þær reglur sem væru til staðar í skólum fælu ekki í sér að það ætti að bjóða bara öllum stelpunum eða öllum strákunum í afmæli. Þetta eru afmælisviðmið eða afmælisreglur sem eru sums staðar til staðar en ekki alls staðar,“ segir Þórhildur.

„Þetta er innlegg í það að það sé hægt að búa til viðmið, leiðbeiningar eða reglur um afmælisboð sem fælu ekki í sér þessa miklu kynjaskiptingu. Eins og er kannski útlistað í leiðbeiningunum þá er ýmislegt sem kynjaskipting getur falið í sér og alls konar aðrar leiðir sem hægt er að fara ef skipta á í hópa.“

Þá sé þetta einnig til þess að létta á „afmælisbyrði“. Það sé heldur ekki alltaf lausnin að það þurfi að bjóða öllum alltaf.

„Það getur líka verið erfitt, tímafrekt og dýrt.“

Leiðbeiningarnar í heild sinni.
Leiðbeiningarnar í heild sinni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert