Sýknað í máli sjómanns sem lést

Landsréttur hefur kveðið upp sinn dóm.
Landsréttur hefur kveðið upp sinn dóm. Ljósmynd/Colourbox

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði útgerðarfélag og TM tryggingar í miskabótamáli.

Málið varðar andlát sjómanns sem drukknaði eftir að hafa fallið fyrir borð af netabát 18. maí 2020. Foreldrar sjómannsins höfðuðu dómsmál til heimtu miskabóta vegna andláts sonar þeirra. Maðurinn sem lést hét Axel Jósefsson Zarioh, fæddur árið 2001.

Fóru fram á 15 milljónir

Dómur héraðsdóms féll í febrúar á þessu ári. Foreldrarnir skutu málinu til Landsréttar í mars og kröfðust hvort um sig að útgerðarfélagið og TM yrðu sameiginlega dæmdir til að greiða þeim 15 milljónir króna í skaðabætur með 4,5% vöxtum af þeirri fjárhæð frá 18. maí 2020.

Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að leggja yrði til grundvallar að Axel hefði drukknað eftir að hafa fallið fyrir borð af netabátnum þegar samkvæmt gögnum málsins slokknaði skyndilega á síma hans líkt og hann hefði lent í vatni.

Axel Jósefsson Zarioh.
Axel Jósefsson Zarioh.

Óvíst hvað olli atburðinum

Fram kemur að engin vitni hafi verið að falli Axels í sjóinn og var því með öllu óvíst hvað olli hinum hryggilega atburði.

Foreldrarnir byggðu málsókn sína á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga sem kvað á um að gera mætti þeim, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns, að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur. Sönnunarbyrðin fyrir því að slys það er olli dauða sonar foreldranna væri að rekja til saknæmrar háttsemi, sem útgerðarfélagið bæri ábyrgð á, hvíldi á foreldrunum.

Hafði verið lögskráður á bátnum í 13 daga

Er slysið varð hafði Axel verið lögskráður á bátnum í 13 daga. Landsréttur segir að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um lögskráningu sjómanna komi skylda til skráningar á öryggisfræðslunámskeið, hjá öðrum en skipverjum á farþega- og flutningaskipum, ekki til fyrr en skipverji hafi verið lögskráður í 180 daga.

Tekið er undir með héraðsdómi að framangreint undanþáguákvæði frá almennu banni við að ráða mann til starfa á íslenskt skip eða lögskrá nema hann hafi hlotið öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila hafi haft lagastoð í 7. gr. þágildandi laga um lögskráningu sjómanna.

Ekki skylt að senda Axel á öryggisfræðslunámskeið

Af því leiðir að útgerðarfélagið var ekki skylt að senda Axel á öryggisfræðslunámskeið áður en hann réð hann til starfa. Þá verður jafnframt með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að foreldrarnir hafi ekki sýnt fram á að þeim leiðbeiningum um framkvæmd starfa sem hann skyldi sinna um borð og kynningu á öryggismálum og -búnaði, sbr. 1. mgr. 8. gr. sjómannalaga, sem Axel þó hlaut samkvæmt framburði skipstjóra og stýrimanns við aðalmeðferð málsins í héraði, hafi verið svo ábótavant að falið hafi í sér verulega vanrækslu af þeirra hálfu þannig að telja megi til stórkostlegs gáleysis í skilningi skaðabótalaga.

Þá verður ekki séð að sú staðreynd að ekki hafi verið haldnar björgunar- og eldvarnaræfingar um borð í bátnum þann tíma sem Axel var þar við störf hafi þýðingu eins og málsatvikum er háttað, að því er segir í dómnum. 

Landsréttur segir enn fremur að með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verði staðfest sú niðurstaða að af ákvæðum siglingalaga, sjómannalaga og laga um lögskráningu verði ekki leidd sú skylda skipstjóra að hafa hverju sinni eftirlit með öllum ferðum skipverja.

Ný gögn breyta ekki fyrra mati

Þá verði eins og atvikum máls háttar og nánar séu rakin í hinum áfrýjaða dómi staðfest sú niðurstaða að það verði ekki metið skipstjóra og öðrum starfsmönnum úgerðarinnar til stórkostlegs gáleysis að þeir hafi ekki uppgötvað fyrr að Axel hafi ekki verið um borð er báturinn kom í land eða að þeir hafi ekki tilkynnt um það fyrr en gert var.

Er tekið undir með hinum áfrýjaða dómi að jafnvel þótt skipverjar hefðu áttað sig á því strax klukkan 10:30 um morguninn að Axel kynni að hafa fallið fyrir borð verði að telja ósennilegt að það hefði skipt sköpum. Breyta ný gögn er áfrýjendur hafa lagt fyrir Landsrétt ekki því mati.

Landsréttur staðfesti því niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknaði útgerðina og TM tryggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert