„Það er auðvitað lögbrot“

Samsett mynd/mbl.is

„Við vorum bara beðnir að aðstoða skattinn,“ segir Heimir Ríkarðsson, stöðvarstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir lögreglustöðinni í Kópavogi, sem sinnir verkefnum þar og í Breiðholti.

Lögregla lokaði veitingastaðnum Café Adesso í Smáralind í gær og innsiglaði staðinn. Innsiglið var rofið strax í gærkvöld og veitingastaðurinn opnaður að nýju. Lögregla fór því aftur á staðinn í dag, lokaði honum og innsiglaði aftur.

Tekið verður á rofi innsiglis með viðeigandi hætti

Spurður hvað hafi í för með sér þegar rekstraraðilar rjúfa innsigli og opni stað aftur sem búið sé að loka segir Heimir að það verði bara að skoða það.

„Það er náttúrulega eins og þú veist auðvitað lögbrot,“ segir hann og játar að tekið verði á því með viðeigandi hætti.

Heimir gat ekki veitt miklar upplýsingar um aðgerðina eða hvers vegna skattayfirvöld vildu ráðast í hana. Sagðist hann ekki vita hversu langan tíma aðgerðirnar tóku í gær og í dag.

Gat hann þó upplýst að full starfsemi hafi verið í gangi þegar staðnum var lokað í gær og að allir hefðu verið sendir til síns heima.

„Svo er bara óskað aftur eftir aðstoð vegna þess að það var búið að rjúfa innsiglið og staðnum var þá bara lokað aftur,“ segir Heimir.

Ekki hefur náðst í fulltrúa skattayfirvalda eða eigendur Café Adesso en þeir tóku við rekstrinum fyrir tæpu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert