Ráðamenn eru sammála um að það sé áhyggjuefni að einhver helstu bókmenntaverk þjóðarinnar virðist vera á undanhaldi á leslistum framhaldsskóla enda snúist málið um menningararf Íslendinga.
Í gær greindi Morgunblaðið frá því að innan við þriðjungur framhaldsskólanema lesi skáldsögu eftir Halldór Laxness sem hluta af skylduáfanga í íslensku en hlutfallið hefur lækkað mikið á síðustu árum. Svipuð þróun virðist vera upp á teningnum hvað viðkemur Íslendingasögum en í svörum framhaldsskóla við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að á síðustu árum hafi einhverjir skólar gefið lestur Njáls sögu í heild sinni upp á bátinn og skipt henni út annaðhvort fyrir styttri og einfaldari sögur eða hluta úr verkinu.
Í samtali við Morgunblaðið segist Logi Einarsson menningarmálaráðherra telja þessa þróun áhyggjuefni. „Auðvitað er það ekki mitt að ákveða hvaða kennsluefni er kennt í framhaldsskóla, en sem menningarmálaráðherra, þá tel ég mikilvægt að íslenskri menningu séu gerð skil í skólaumhverfi barna og unglinga. Ekki síst bókmenntaarfinum sem hefur verið órofinn þráður í gegnum sögu okkar og skiptir miklu máli.“
Þá segir hann vont ef rekja megi þessa þróun að hluta til styttingar framhaldsskólanna líkt og einhverjir kennarar hafa velt upp. „Það má auðvitað ekki gerast að við séum að stytta námsleiðir og klippa út gríðarlega mikilvæga hluti úr námsefninu.“
Í skriflegu svari til Morgunblaðsins lýsir starfsbróðir Loga, Guðmundur Ingi Kristinsson barna- og menntamálaráðherra, sömuleiðis áhyggjum af þróuninni. „Lestur er lykillinn að samfélaginu og við verðum sem samfélag að gera betur. Auðvitað skiptir máli að bókmenntir á borð við Laxness og Íslendingasögurnar séu aðgengilegar krökkunum okkar. Þetta er menningararfurinn okkar,“ segir Guðmundur.
Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur tekur í svipaðan streng. „Við verðum óneitanlega miklu fátækari ef við missum svona stóra búta úr sameiginlegri fortíð þjóðarinnar eins og sögurnar, og svona stóra viðmiðun í bókmenntunum eins og Halldór Laxness.“
Nánar má lesa um málið á bls.4 í Morgunblaðinu í dag og í Mogga-appinu