Þorbjörg fylgir Höllu til Peking

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. Samsett mynd/mbl.is/Ásdís/Stjórnarráðið

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttismála mun fylgja Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, í heimsókn til Kína dagana 12.–15. október.

Venju samkvæmt fylgir ráðherra alltaf forseta á ferðalögum erlendis, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins

Fram kemur að heimsóknin marki 30 ára afmæli kvennaráðstefnunnar í Peking og sendiráðs Íslands í Kína. Forseta Íslands er boðið sem heiðursgesti að ávarpa 30 ára hátíðarfund kvennaráðstefnunnar í Peking sem haldinn er á vegum kínverskra stjórnvalda og UN Women. Forseti mun einnig eiga tvíhliða fund með forseta Kína, Xi Jinping. Ráðherra fylgir forseta á fundinn.

Þrjátíu ár liðin

Þá segir að 30 ár séu nú liðin frá því Peking-yfirlýsingin og aðgerðaáætlun í jafnréttismálum hafi verið samþykktar á fjórðu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í kínversku höfuðborginni árið 1995.

Ráðstefnan er talin einn stærsti og áhrifamesti fundur í sögu jafnréttismála þar sem fulltrúar frá 189 ríkjum og fjölmörgum félagasamtökum komu saman.

Bent er á að yfirlýsingin hafi markað tímamót í jafnréttismálum á heimsvísu og hafi verið talin framsæknasti og árangursríkasti vegvísir sem samþykktur hafi verið um réttindi kvenna og stúlkna. Hún hafi verið hornsteinn í alþjóðlegri jafnréttisbaráttu síðustu þrjá áratugi og minni á að réttindi kvenna eru órjúfanlegur hluti mannréttinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert