„Ástandið er enn mjög slæmt. Við höfum verið í aðgerðum og munum halda þeim áfram en harðari refsingar myndu klárlega hjálpa til við að fæla fólk frá þessu,“ segir Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, framkvæmdastjóri miðla og efnisveitna hjá Sýn.
Afar erfiðlega gengur að sporna við ólöglegu niðurhali hér á landi sem virðist halda áfram að aukast. Bæði er þar um að ræða svokallað IPTV, ólöglega sjónvarpsþjónustu sem margir nýta til að horfa á íþróttaefni, og deilisíður og svokallað Plex þar sem hægt er að nálgast sjónvarpsþætti og bíómyndir.
Áætlað er að ríflega 30 prósent heimila hér á landi séu með áskrift að IPTV-efnisveitum sem dreifa ólöglegum aðgangi að sjónvarpsstöðvum um allan heim.
Svíar hafa ákveðið að herða viðurlög við ólöglegu niðurhali og nú er til umræðu þar í landi að notkun IPTV-þjónustu verði gerð ólögleg. Það myndi þýða að hægt væri að sekta þá sem nota slíkar þjónustur. Fram til þessa hafa yfirvöld bara getað farið á eftir þeim sem selja IPTV-þjónustu.
Í Svíþjóð er talið að allt að 700.000 heimili séu með ólöglega sjónvarpsþjónustu eða um 15% heimila. Tap samfélagsins er metið á allt að 1,5 milljörðum sænskra króna ár hvert.
Í dag mega þeir sem bjóða upp á IPTV-sjónvarpsþjónustu eiga von á fangelsisvist og að þurfa að greiða milljónir í skaðabætur ef laganna verðir ná í skottið á þeim. Ef fyrirhugaðar lagabreytingar ná fram að ganga verður refsing yfir þeim hækkuð í allt að sex ára fangelsi.
„Það er mikið áhyggjuefni að við höfum í nokkur ár séð þróun þar sem fleiri og fleiri Svíar kjósa í raun að greiða peninga beint til skipulagðrar glæpastarfsemi til að geta horft á kvikmyndir, íþróttaviðburði og sjónvarpsþætti í gegnum ólöglegt IP-sjónvarp. Þetta þýðir að tekjur sem ættu að fara til menningariðnaðarins, íþróttahreyfingarinnar, streymisþjónustu- og sjónvarpsfyrirtækja enda í staðinn í vasa glæpamanna,“ segir menningarmálaráðherrann Parisa Liljestrand við Aftonbladet.
Kristjana segir að sér lítist vel á fyrirhugaðar breytingar í Svíþjóð. Frísk, Félag rétthafa í sjónvarpi og kvikmyndum, hafi um hríð unnið að því að berjast fyrir því að refsingar fyrir þessi brot verði hertar. „Til að svona mál fái forgang í kerfinu þá verður refsiramminn að vera þungur. Við ættum að horfa til landa í kringum okkur varðandi reglur og refsingar. Við erum því miður eftir á,“ segir Kristjana.
Hátt í tíu síðum sem bjóða ólöglega sjónvarpsþjónustu hér á landi hefur verið lokað síðustu misseri. Hún segir að setja þurfi meiri kraft í vinnu við að uppræta þessa starfsemi. Það eigi ekki bara við um Frísk heldur líka félögin sem eiga hagsmuna að gæta.
„Það sem vantar helst á Íslandi er meiri samstaða meðal fjarskiptafyrirtækjanna.“
Allra mikilvægast er þó að til komi viðhorfsbreyting hjá landsmönnum um notkun ólöglegra sjónvarpsþjónusta. Víða megi sjá fólk ræða með opinskáum hætti á samfélagsmiðlum um notkun sína á slíkum þjónustum. Margir viti ekki af því að þeir séu að nota ólöglega þjónustu enda greiði þeir fyrir hana. Öðrum standi einfaldlega á sama.
„Við þurfum að einbeita okkur að því að breyta þeirri menningu að fólk telji að þetta sé í lagi. Þessar þjónustur eru gjarnan skipulagðar af skipulögðum glæpasamtökum. Það virðist fjarlægt en samt eru Íslendingar tilbúnir að vera í áskrift hjá skipulögðum glæpasamtökum. Fólki finnst það vera í lagi.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
