Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa til umsagnar fyrirspurn ÞG verktaka ehf. um uppbyggingu hótels á lóð nr. 2 við Grandagarð samkvæmt teikningum Glámu-Kím arkitekta. Verkefnastjóri skipulagsfulltrúa fer nú yfir erindið.
Á lóðinni Grandagarður 2 stendur Alliance-húsið, sem er friðað. Lóðin býður upp á mikla möguleika til uppbyggingar. Til fjölda ára hafa verið áform um byggingarframkvæmdir en ekkert hefur orðið af þeim af ýmsum ástæðum.
Í fyrirspurn ÞG verktaka er sótt um leyfi til að endurnýja Alliance-húsið í samráði við Minjastofnun og rífa seinni tíma viðbyggingu við húsið. Í viðbyggingu er engin starfsemi í dag en þar var áður til húsa noðurljósasýningin Aurora.
Einnig er sótt um leyfi til að byggja þriggja hæða verslunar- og hótelbyggingar við Grandagarð og Rastargötu og sömuleiðis byggingu milli Alliance-hússins og íbúðarhússins Mýrargata 26. Á hótelinu er gert ráð fyrir 117 herbergjum.
Íbúar Mýrargötu 26 mótmæltu á sínum tíma harðlega nýbyggingu upp við hús sitt.
Útveggir jarðhæðar nýbygginga verða að mestu glerjaðir í samræmi við kröfur deiliskipulags. Aðalinngangur að hóteli og verslunum verður frá Rastargötu.
Nýbyggingarnar verða samtals 8.767 fermetrar, þar af 6.024 fm ofanjarðar og bíla- og tækjakjallari 2.743 fm.
Aðkoma bíla verði frá Rastargötu að innkeyrslu í kjallara og bílastæðum á lóð. Bílastæði verða alls 61 og hjólastæði 102.
Alliance-húsið var friðað árið 2010 og nær friðunin til ytra borðs aðalhúss. Húsið er úr steinsteypu og byggt á árunum 1924 til 1925 eftir teikningum Guðmundar H. Þorlákssonar húsameistara. Það er talið hafa mikið byggingarlistalegt gildi sem dæmi um glæsilegt höfundarverk Guðmundar, segir á vef Minjastofnunar.
Mijastofnun segir ennfremur að Allliance-húsið hafi verið byggt sem saltverkunarhús og hafi mikið menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um þá atvinnustarfsemi er eitt sinn einkenndi gamla Vesturbæinn.
Þá sé húsið lítið breytt frá upprunalegri gerð og hafi mikið gildi fyrir hafnarsvæðið.
Reykjavíkurborg festi kaup á Grandagarði 2 árið 2012 fyrir 340 milljónir króna. Í dag er starfrækt í húsinu Sögusafnið og veitingastaðurinn Matur og drykkur. Fasteignin á Grandagarði 2 er skráð 2.701 fermetri á þremur hæðum.
Reykjavíkurborg hefur gert nokkrar tilraunir til að selja húsið en það tókst ekki fyrr en í febrúar 2023.
Borgarráð samþykkti þá að selja Arcusi ehf. Alliance-húsið fyrir 880 milljónir króna. Með í kaupunum fylgdi réttur til uppbyggingar á lóðinni.
Fram kom í fréttum að Arcus, sem er hluti af samstæðu ÞG verktaka, áformaði að reisa hótel á lóðinni.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
