Á Instagram og TikTok heldur grínistinn og uppistandarinn Greipur Hjaltason úti síðu sinni undir nafninu greipjokes. Einnig er hann með vefsíðuna greipjokes.com þar sem hann selur varning tengdan gríninu.
Greipur, sem varð Íslandsmeistari i uppistandi fyrir fimm árum, féllst á að hitta blaðamann og ræða málin, en athygli vekur að Greipur er með 1,7 milljónir fylgjenda á Instagram og yfir 800 þúsund á TikTok.
Greipur er á leið til Aþenu þar sem hann verður með uppistand en annars er hann mestmegnis heima á Íslandi að búa til nýja brandara, sinna myndböndum sínum og hugsa um börnin sín tvö, Magnús og Lukku.
„Galdurinn er að segja eitthvað í fyrsta skipti. En það er líka auðvelt að klúðra þessu.“
Þegar þú varst lítill eða unglingur, varstu alltaf að reyna að vera fyndinn?
„Nei, ég var nú bara vitleysingur. Þegar ég var unglingur var ég að reyna að ná mér í stelpur, sætustu stelpurnar sem allir vildu kyssa, ef ég má segja það í viðtali. En ef ég gæti ekki náð í stelpu, gæti ég að minnsta kosti verið fyndnari en hinir strákarnir. Þeir fengu kannski að kyssa þær en þeim fannst ég miklu fyndnari,“ segir hann.
Fékkstu ekki stelpur með því að vera fyndinn?
„Nei, það var ekki nóg,“ segir hann og hlær.
Greipur nær í brandarabókina og blaðar í henni.
„Mér finnst gaman að blanda súrrealisma inn í brandarana og ég hef engin mörk. Ég er tilbúinn að hafa þetta svolítið kjánalegt. Margir segja að þetta sé þurr húmor,“ segir Greipur.
Fylgjendum á Instagram fjölgar stöðugt og segir Greipur að í síðustu viku einni saman hafi 400 þúsund nýir bæst við.
„Samanlagt á TikTok og Instagram eru þetta yfir tvær milljónir. Ég tók saman bestu vídeóin mín og endurpóstaði og þetta er að springa út. Svo setti ég búta með stráknum mínum en hann er mjög vinsæll. Þetta fólk er úti um allan heim, mikið frá Bandaríkjunum,“ segir hann.
Magnús og Lukka eru farin að sjást oftar og oftar í myndböndum Greips. Oft má sjá Magnús bardúsa eitthvað í náttúrunni, klifra, detta eða einfaldlega vera á röltinu. Oftar en ekki minnist fólk á Magnús í athugasemdum sínum.
„Ég rakst einu sinni á útlenska stelpu á Reyðarfirði sem spurði mig: „Ertu pabbi Magnúsar?“ Ég er mikið að dröslast með hann og þau bæði,“ segir hann, en mörg myndböndin eru tekin upp á Eskifirði þar sem kona Greips á foreldra.
Einstaka myndbönd hjá Greipi hafa fengið tuttugu milljón áhorf og í síðasta mánuði var horft á myndböndin hans alls sextíu milljón sinnum.
„Þetta er alveg súrrealískt,“ segir hann.
„Ég fæ oft yfir þúsund komment við eitt myndband og það er ekki eitt einasta neikvætt. Ég klippti saman vídeó af Magnúsi og fólk deildi þessu mörg hundruð þúsund sinnum,“ segir hann og bætir við: „Internetbrandararnir eru öðruvísi en brandararnir í uppistandi. Það verður spennandi að sjá hvernig uppistandið í Aþenu gengur,“ segir hann, en Greipur er með uppistand þar í mánuðinum.
Blaðamaður kvaddi Greip en var ekki sloppinn úr klóm hans því strax sama kvöld birti hann myndband þar sem hann talar um viðtalið í löngu máli. Þar byrjar hann á setningunni: „There was a lady here from the newspaper ….“
Fjórtán þúsund manns hafa nú þegar „lækað“ myndbandið enda skemmtilegt áhorfs!
Ítarlegt viðtal er við Greip í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.