Á Instagram og TikTok heldur grínistinn og uppistandarinn Greipur Hjaltason úti síðu sinni undir nafninu greipjokes.
Einnig er hann með vefsíðuna greipjokes.com þar sem hann selur varning tengdan gríninu. Greipur, sem varð Íslandsmeistari i uppistandi fyrir fimm árum, féllst á að hitta blaðamann og ræða málin, en athygli vekur að Greipur er með 1,7 milljónir fylgjenda á Instagram og yfir 800 þúsund á TikTok. Greipur er á leið til Aþenu þar sem hann verður með uppistand en annars er hann mestmegnis heima á Íslandi að búa til nýja brandara, sinna myndböndum sínum og hugsa um börnin sín tvö, Magnús og Lukku.
„PRUFA EINN TVEIR ÞRÍR,“ öskrar Greipur um leið og blaðamaður kveikir á upptökutækinu. Hann hlær sínum sérstaka hlátri og við hefjum viðtalið.
Spurður um upphafið að gríninnslögunum segir Greipur að hann hafi verið mikið í uppistandi, en covid hafi sett strik í reikninginn og þá hafi hann byrjað að nota netið sem sinn miðil.
„Ég breytti þá bara gríninu og fór að setja á netið, en áður var ég í tíu ár að skemmta á Gauknum og Secret Cellar,“ segir Greipur, en hann var einmitt valinn uppistandari Íslands árið 2020.
Greipur er alinn upp í Vesturbænum en flutti norður til Skagastrandar fimmtán ára. Hann flutti svo til Akureyrar og hóf nám í Verkmenntaskólanum á Akureyri og er stúdent þaðan.
„Ég var helvíti lengi að klára hann en það tókst. Það var gaman á Akureyri og ég á góðar minningar þaðan. Ég prófaði háskólann en það var ekkert fyrir mig og ég vildi fara mínar eigin leiðir. Ég flutti í bæinn og byrjaði í uppistandi á Bar 11 þegar þar var „open mike“-kvöld. Ég var þá að vinna í uppvaskinu í Hagaskóla og æfði settið á meðan uppþvottavélin var að klára. Það var ekkert rosalega fyndið en vel æft. En það virkaði vel þegar ég fór með það í uppistandið,“ segir hann.
„Galdurinn er að segja eitthvað í fyrsta skipti. En það er líka auðvelt að klúðra þessu.“
Þegar þú varst lítill eða unglingur, varstu alltaf að reyna að vera fyndinn?
„Nei, ég var nú bara vitleysingur. Þegar ég var unglingur var ég að reyna að ná mér í stelpur, sætustu stelpurnar sem allir vildu kyssa, ef ég má segja það í viðtali. En ef ég gæti ekki náð í stelpu, gæti ég að minnsta kosti verið fyndnari en hinir strákarnir. Þeir fengu kannski að kyssa þær en þeim fannst ég miklu fyndnari,“ segir hann.
Fékkstu ekki stelpur með því að vera fyndinn?
„Nei, það var ekki nóg,“ segir hann og hlær.
Greipur á í dag sambýliskonu sem hann segist hafa „náð að draga á uppistand“ og hann hefur verið með henni síðan. Saman eiga þau Magnús, fjögurra ára og Lukku, tveggja ára.
„Ég var í góðri vinnu við að gera vídeó en hef undanfarna mánuði einblínt á að vera sjálfstætt starfandi,“ segir Greipur, en hann er nú um miðjan október á leiðinni til Aþenu með uppistand.
„Mér finnst ekkert gaman að ferðast og á ábyggilega eftir að týnast á flugvellinum í París þar sem ég þarf að millilenda. Ég hef oft verið með sýningar en þetta er í fyrsta sinn sem ég er með sýningu einn. Það er mjög spennandi,“ segir hann, en Greipur segist fá mikið af boðum í gegnum samfélagsmiðla frá fylgjendum sínum.
„Ég er líka að skrifa brandarabækur og það væri gaman að gefa þær út núna fyrir jólin. Ertu ekki með prentara þarna á Mogganum? Svo er ég að selja dót á síðunni minni og það tikkar eitthvað smá inn,“ segir Greipur.
Geturðu lýst þínum húmor?
Greipur nær í brandarabókina og blaðar í henni.
„Mér finnst gaman að blanda súrrealisma inn í brandarana og ég hef engin mörk. Ég er tilbúinn að hafa þetta svolítið kjánalegt. Margir segja að þetta sé þurr húmor,“ segir Greipur.
„Sumir brandararnir eru svo slæmir að þeir verða eiginlega fyndnir. Sniðugu brandarnir eru kannski ekkert fyndnastir. Ég skrifa mikið í bókina mína og læt orðin bara flæða.“
Fylgjendum á Instagram fjölgar stöðugt og segir Greipur að í síðustu viku einni saman hafi 400 þúsund nýir bæst við.
„Samanlagt á TikTok og Instagram eru þetta yfir tvær milljónir. Ég tók saman bestu vídeóin mín og endurpóstaði og þetta er að springa út. Svo setti ég búta með stráknum mínum en hann er mjög vinsæll. Þetta fólk er úti um allan heim, mikið frá Bandaríkjunum,“ segir hann.
Greipur fær ekkert greitt fyrir öll myndböndin, enda er hann ekki að auglýsa neitt og reglurnar eru aðrar hér en til dæmis í Bandaríkjunum. Þar væri hann að þéna peninga fyrir hverja birtingu. Það kemur þó fyrir að aðdáendur Greips leggja inn á PayPal-reikning hans.
„Um daginn eyðilagði ég símann minn og bað fólk um að leggja inn á mig fyrir nýjum síma. Ég fékk 120 þúsund kall yfir nóttina. Inni á milli fæ ég smápeninga frá fylgjendum og svo er búðin komin í gang. Ég tek svo að mér verkefni hér og þar,“ segir hann.
„Svo er búið að bjóða mér að túra í Evrópu og þá ætti ég að fá ágætlega borgað.“
Magnús og Lukka eru farin að sjást oftar og oftar í myndböndum Greips. Oft má sjá Magnús bardúsa eitthvað í náttúrunni, klifra, detta eða einfaldlega vera á röltinu. Oftar en ekki minnist fólk á Magnús í athugasemdum sínum.
„Ég rakst einu sinni á útlenska stelpu á Reyðarfirði sem spurði mig: „Ertu pabbi Magnúsar?“ Ég er mikið að dröslast með hann og þau bæði,“ segir hann, en mörg myndböndin eru tekin upp á Eskifirði þar sem kona Greips á foreldra.
Einstaka myndbönd hjá Greipi hafa fengið tuttugu milljón áhorf og í síðasta mánuði var horft á myndböndin hans alls sextíu milljón sinnum.
„Þetta er alveg súrrealískt,“ segir hann.
„Ég fæ oft yfir þúsund komment við eitt myndband og það er ekki eitt einasta neikvætt. Ég klippti saman vídeó af Magnúsi og fólk deildi þessu mörg hundruð þúsund sinnum,“ segir hann og bætir við: „Internetbrandararnir eru öðruvísi en brandararnir í uppistandi. Það verður spennandi að sjá hvernig uppistandið í Aþenu gengur,“ segir hann.
„Það væri gaman að vera með vikulegar sýningar á einhverjum bar niðri í bæ fyrir túristana því mér finnst ekkert spennandi að hoppa á milli skítugra bara í Evrópu. En draumurinn er að geta komið bröndurunum frá mér héðan. Ég er ekkert góður með peninga en ég er góður með húmor,“ segir hann og hlær.
„Alheimurinn mun finna leið,“ segir hann.
„Ég var að skrifa einn brandara í gær, viltu heyra hann? Kanntu ensku?“
Blaðamaður var til í það og sagðist vera ágæt í ensku.
„How do you get a condom on a polar bear? You become expert,“ segir hann.
„Konunni minni fannst þetta ekkert fyndið en ég held að þetta gæti alveg slegið í gegn,“ segir hann og er mikið að spá í hvernig hann gæti gefið út bókina sína. Hann auglýsir hér með eftir útgefanda.
Hvernig er dagurinn hjá sjálfstætt starfandi grínista?
„Ég er nú varla orðinn það; konan mín heldur okkur uppi en það fer vonandi að breytast. En dagurinn snýst mikið um börnin, húsverkin og að skrifa. Svo er ég duglegur á netinu og að halda utan um búðina,“ segir hann, en á netinu má kaupa kodda, boli, stuttbuxur, bolla og buff svo eitthvað sé nefnt, en þess má geta að Greipur sést oft með buff í myndböndum sínum, oftast úti í náttúrunni.
Blaðamaður kvaddi Greip en var ekki sloppinn úr klóm hans því strax sama kvöld birti hann myndband þar sem hann talar um viðtalið í löngu máli. Þar byrjar hann á setningunni: „There was a lady here from the newspaper ….“
Fjórtán þúsund manns hafa nú þegar „lækað“ myndbandið enda skemmtilegt áhorfs!
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
