Umdeildar framkvæmdir við gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls, þar sem fjarlægð voru hægribeygjuframhjáhlaup sem valdið hafa miklum umferðartöfum á gatnamótunum, voru hvorki samþykktar í borgarráði Reykjavíkurborgar, né samþykkt að veita fjármuni til verkefnisins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði hafa óskað skýringa á því hvers vegna ekki var óskað nauðsynlegra heimilda áður en ráðist var í útboð verksins.
„Ég hef óskað eftir áliti borgarlögmanns á því hvort það sé ekki rétt sem ég tel, að skort hafi fjárheimildir til að fjarlægja þessi hægribeygjuframhjáhlaup á gatnamótunum. Það er ekkert í beiðninni sem kom til borgarráðs sem ber þess merki að fara hafi átt í þessa framkvæmd,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, í samtali við Morgunblaðið.
Aðeins hafi verið gefin fjárheimild fyrir endurnýjun umferðarljósastýringa, en ekki breytingunni sem gerð var á gatnamótunum. Er óskað álits borgarlögmanns á afleiðingum þess að farið sé í framkvæmdir án fjárheimildar.
„Þetta minnir óneitanlega á braggamálið, að því leyti að vandamálið þar var skortur á fjárheimildum,“ segir hún.
„Við veittum bara heimild til að endurnýja umferðarljósin. Aldrei var óskað eftir því að framhjáhlaupin yrðu fjarlægð,“ segir Hildur og segist einnig hafa óskað eftir sundurliðuðum kostnaði við framkvæmdina á gatnamótunum, annars vegar kostnaði vegna endurnýjunar umferðarljósanna sem og vegna hinna umdeildu breytinga á gatnamótunum þar sem framhjáhlaupin voru fjarlægð.
Spurð hvaða áhrif það gæti haft ef ráðist var í framkvæmdirnar án heimildar segir Hildur að þá þyrfti að fá innri endurskoðun borgarinnar til að fjalla um það með sama hætti og gert var í braggamálinu.
„Það er slæmt að sjá að ekki hafi verið dreginn lærdómur af því máli og að farið sé í gríðarlega umdeildar framkvæmdir án heimildar borgarráðs. Mig rak sjálfa í rogastans þegar ég sá að framhjáhlaupin höfðu verið fjarlægð,“ segir Hildur og hún segir sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa þegar lagt til að gatnamótin verði færð til fyrra horfs.