Hart tekist á um ríkisframlög til stjórnmálaflokka

Þingmennirnir takast nú á um ríkisstyrkina í kjölfar sérstakrar umræðu …
Þingmennirnir takast nú á um ríkisstyrkina í kjölfar sérstakrar umræðu á Alþingi í vikunni. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/María Matthíasdóttir

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vísar því á bug að sérhagsmunir myndu kaupa sig til áhrifa í stjórnmálaflokkum yrðu ríkisframlög til þeirra afnumin. 

Þetta segir þingmaðurinn í færslu á Facebook-síðu sinni nú þar sem hún gerir skoðanagrein Örnu Láru Jónsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem birtist á Vísi í vikunni að umtalsefni sínu. 

Að ósk Diljár fór á miðvikudaginn fram sérstök umræða á Alþingi um ríkisframlög til stjórnmálasamtaka. Arna Lára skrifaði í kjölfarið skoðanagrein sína þar sem hún varði framlögin og sagði þau meðal annars draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi um störf stjórnmálaflokka.

Það vakti athygli fyrr á árinu þegar í ljós kom að Flokkur fólksins hefði þegið um 240 milljónir króna í framlög frá ríkinu án þess að uppfylla til þess skilyrði. Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, gerði þó ekki kröfu um að styrkirnir yrðu endurgreiddir. 

Sterkari fjárhagur geri flokkana frjálsari

Diljá Mist segir í færslu sinni að því sé öfugt farið að halda því fram að sterk fjárhagsstaða stjórnmálaflokks geri hann veikari fyrir sérhagsmunum.

„Því sterkari sem fjárhagur stjórnmálasamtaka er, þeim mun frjálsari eru þau gagnvart utanaðkomandi þrýstingi. Það ætti að vera markmið allra flokka að geta staðið á eigin fótum, ekki að gera fjárhagslegt sjálfstæði annarra að vandamáli,“ segir Diljá Mist.

Það sé með ólíkindum að fulltrúar Samfylkingarinnar, og annarra flokka, geri það tortryggilegt að atvinnulífið og einstaklingar styðji við stjórnmálastarf. 

Samkvæmt lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, sem tóku gildi árið 2006, er stjórnmálasamtökum óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá einstaklingum og lögaðilum en sem nemur 550.000 krónum á ári.

Valhöll ekki vettvangur fjármálabrasks

Eins og áður segir tóku lögin gildi árið 2006 en árið 2017 voru framlögin svo hækkuð um 127%, en þá var við völd ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar. Arna Lára segir í skoðanagrein sinni að það sé athyglisvert að Sjálfstæðisflokknum hafi snúist hugur í þessu máli

Hún segir ástæðuna vera þá að flokkurinn sé í algjörum sérflokki er varðar fjárhagsstöðu í samanburði við aðra stjórnmálaflokka vegna þéttingar byggðar í kringum Valhöll, þar sem má finna skrifstofu Sjálfstæðisflokksins. 

Diljá Mist gagnrýnir þennan málflutning Örnu Láru í færslu sinni. Hún segir Valhöll hafa í áratugi verið vettvangur lýðræðis, funda og félagsstarfs, en ekki fjármálabrasks eða þéttingar byggðar. 

„Valhöll var ekki reist af stórfyrirtækjum eða fjármálaveldum. Hún var byggð af sjálfstæðismönnum, venjulegu fólki, sjálfboðaliðum og stuðningsfólki flokksins sem lagði hönd á plóg, gaf vinnu sína og fé til að skapa sameiginlegt heimili fyrir fólk sem deildi hugsjónum sem þjónað hafa íslensku samfélagi í áratugi,“ segir Diljá Mist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert