„Hef áhyggjur af mér sjálfri því ég les svo lítið“

Svo virðist sem að það dregið hafi úr því að …
Svo virðist sem að það dregið hafi úr því að nemendur lesi lengri og flóknari bókmenntaverk í heild sinni. Samsett mynd

Nemendur Verzlunarskóla Íslands hafa áhyggjur af stöðu tungumálsins og hve lítið fólk á þeirra aldri les. Þeir hafa einnig áhyggjur af sér sjálfum en telja jafnframt að staðan sé enn verri meðal yngri barna.

Þegar blaðamann ber að garði í Verzlunarskólanum upp úr hádegi í gær eru nemendur að tínast úr síðustu tímum vikunnar og nokkuð fáir á ferli.

Á hinum svokallaða Marmara sitja þó þær Aldís María Smáradóttir og Karen Birna Stephensen, nemendur á öðru ári, og eru til í að ræða stöðu íslenskunnar og lestur íslenskra bókmenntaverka.

Lesa minna af lengri verkum 

Morgunblaðið greindi frá því í gær að innan við þriðjungur framhaldsskólanema læsi skáldsögu eftir Halldór Laxness sem hluta af skyldunámi sínu í íslensku.

Svo virðist sem dregið hafi úr því að nemendur lesi lengri og flóknari bókmenntaverk í heild sinni.

Kennarar hafa bent á styttingu framhaldsskólanna, minnkandi orðaforða, dvínandi lesskilning og breyttan tíðaranda í þessu samhengi.

Halldór Laxness kemur til landsins með Gullfossi eftir að tilkynnt …
Halldór Laxness kemur til landsins með Gullfossi eftir að tilkynnt hafði verið að hann fengi Nóbelsverðlaunin 1955. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Egilssaga skemmtilegust

Upp á síðkastið hafa Aldís og Karen í íslenskutímum stúderað bækur á borð við Egilssögu, Bókmenntir í nýju landi eftir Ármann Jakobsson og Skáld skrifa þér – brot úr bókmenntasögu frá 1550 til 1920. 

Spurðar hvað sé skemmtilegast af þessu stendur ekki á svörunum.

„Egilssaga,“ segja þær í kór og Karen bætir við: „Það er bara svona gaman að sjá söguna okkar og hvernig við verðum Ísland.“

Þær eru þó báðar sammála um að Egilssaga sé mjög krefjandi lestur.

Hafa lesið Laxdælu en ekki Laxness 

Spurðar hvort þær hafi lesið eitthvað eftir Halldór Laxness svara þær því neitandi en taka fram að þær hafi lesið Laxdælu.

„Er hann ekki með svolítið draugalegar sögur?“ spyrja þær og rifja í kjölfarið upp að Laxness hafi fengið Nóbelsverðlaun.

„Við vorum einmitt að læra um þetta í dag,“ segir Aldís glöð í bragði.

Karen Birna Stephensen og Aldís María Smáradóttir.
Karen Birna Stephensen og Aldís María Smáradóttir. mbl.is/Elínborg

Mótar hvernig maður hugsar um gamla tíma

Spurðar hvort þær telji mikilvægt að lesa klassísk íslensk bókmenntaverk í menntaskóla svara þær því játandi.

„Það mótar alveg hvernig maður hugsar um gamla daga,“ segir Karen og Aldís bætir við:

„Maður sér sérstaklega hvernig tungumálið hefur breyst, hvernig það var talað öðruvísi en í dag.“

Hefur í raun rosalegar áhyggjur 

Hafið þið áhyggjur af því að ungt fólk lesi ekki nóg í dag?

„Já, alveg mjög miklar. Í rauninni rosalegar,“ segir Karen. „Ég persónulega les aldrei bækur.“

Hún segist jafnframt óttast að tungumálið sé á niðurleið. „Maður er alveg að sletta á ensku og eitthvað.“

Þær telja þetta varhugaverða þróun. „Litlir krakkar nú til dags eru að tala allt of mikla ensku og við þurfum náttúrulega að halda íslenskunni uppi.“

Aldís segir að það sé gaman að tala góða íslensku og Karen tekur undir það.

Auka þurfi lestur bóka í grunnskólum

Þið talið um að börn á grunnskólaaldri tali enn meiri ensku en fólk á ykkar aldri, hafið þið áhyggjur af því að þau muni ekki skilja bækurnar sem þið eruð að lesa núna þegar þau byrja í framhaldsskóla?

„Það er nógu erfitt fyrir okkur að skilja Egilssögu þannig að ég held þetta verði alveg meira vesen með árunum.“

Spurðar hvað þær haldi að sé til ráða segja þær að auka þurfi lestur bóka í grunnskólum.

„Maður þarf að kunna að fallbeygja orð og eitthvað. En ég held að það sé mikilvægt að lesa bækur.“

Helga Hrund Ólafsdóttir, Tinna Jónasdóttir og Embla Guðríður Arnardóttir.
Helga Hrund Ólafsdóttir, Tinna Jónasdóttir og Embla Guðríður Arnardóttir. mbl.is/Elínborg

Ógeðslega dugleg í því að sletta

Á næsta borði við þær stöllur situr annar hópur nemenda og bíður eftir því að hefja æfingu á leikriti sem listafélag skólans mun frumsýna í lok mánaðar.

Þær Tinna Jónasdóttir, Helga Hrund Ólafsdóttir og Embla Guðríður Arnardóttir eru sammála skólasystrum sínum um að lestur í þeirra aldurshópi sé í lágmarki.

„Ég get bara sagt það sjálf að ég hef áhyggjur af mér sjálfri því ég les svo lítið. Ég þekki mjög fáa sem lesa sér eitthvað til gamans,“ segir Embla.

„Við erum svo ógeðslega dugleg í því að sletta. Og stundum, alla vega persónulega, hugsa ég fyrst á ensku áður en ég geri það á íslensku og svo finn ég ekki íslenska orðið,“ segir Helga.

Þá telja þær ástandið enn verra meðal yngri aldurshópa. „Eins og litli bróðir minn. Hann er strax byrjaður að sletta og hann er í sjöunda bekk. Ég var ekki mikið í slettum í sjöunda bekk þannig að ég held að þetta sé að verða verra og verra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert