Hefja skráningu fingrafara ferðamanna utan Schengen

Fyrstu mánuðina verður kerfið einungis í notkun á Keflavíkurflugvelli. Að …
Fyrstu mánuðina verður kerfið einungis í notkun á Keflavíkurflugvelli. Að sex mánuðum liðnum verður það komið í gagnið á öllum ytri landamærum Íslands. mbl.is/Eggert

Nýtt skráningarkerfi ferðamanna (ENTRY/EXIT System) tekur gildi á morgun 12. október en Evrópusambandið hefur undanfarin ár unnið að rafrænu skráningarkerfi fyrir ferðamenn sem ferðast inn fyrir sameiginleg landamæri Schengen-svæðisins.

ENTRY/EXIT skráningarkerfið mun aðeins snúa að svokölluðum þriðja ríkisborgurum, þ.e. þeim sem hvorki búa innan Evrópusambandsins né annarra ríkja sem taka þátt í Schengen-samstarfinu.

Þannig snýr nýja kerfið ekki að Íslendingum. Þeir munu áfram nota sjálfvirk landamærahlið. Meðal annars felur innleiðing kerfisins í sér að fingraför ferðamanna sem búa utan Evrópusambandsins og Schengen-svæðisins verða skráð rafrænt.

Stigvaxandi innleiðingu lýkur eftir sex mánuði

Innleiðing skráningarkerfisins hefst á morgun á öllum ytri landamærum Schengen-svæðisins, þar á meðal hér á landamærum Íslands. Samkvæmt ákvörðun Evrópusambandsins verður innleiðingin stigvaxandi og gert er ráð fyrir að henni verði að fullu lokið að sex mánuðum liðnum.

Fyrstu mánuðina verður kerfið einungis í notkun á Keflavíkurflugvelli. Að sex mánuðum liðnum verður það komið í gagnið á öllum ytri landamærum Íslands.

Kerfið mun leysa af handstimplun vegabréfa hjá landamæravörðum og færa skráningu komu og brottfara ferðamanna til og frá ríkjum utan Schengen-svæðisins yfir á stafrænt form.

Evrópusambandið hefur útbúið samræmt kynningarefni um Entry/Exit kerfið á 26 tungumálum.

Helstu upplýsingar, fingraför og andlitsmynd

Ómar Annisius, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, segir að nýtt kerfi muni efla og styrkja eftirlit á ytra svæðinu sem muni líka gera að verkum að öryggi batni á innra svæðinu.

Lýsir hann nýja kerfinu sem svo í samtali við mbl.is að ferðamenn sem ætli að koma og dvelja í skammtímadvöl innan Schengen-svæðisins, þ.e. í 90 daga á hverju 180 daga tímabili þurfi að nota ENTRY/EXIT kerfið. Það eigi bæði við um þá sem njóta áritunarfrelsis og þeirra sem þurfa áritun inn á svæðið.

Hér á Íslandi fari þeir í sjálfsafgreiðlsuvél (kiosk) sem skráir helstu upplýsingar; nafn, fæðingardag, þjóðerni og vegabréfanúmer sem dæmi. Svo eru tekið fingraför og andlitsmynd.

Ómar segir markmið skráningarinnar að flýta fyrir afgreiðslu á landamærum, bæta öryggi og tryggja nákvæma skráningu um hvenær ferðamenn koma og fara. Það hjálpi m.a. til við að koma í veg fyrir ólöglega veru innan Schengen-svæðisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert