Hve marga myrti Axlar-Björn?

Hér má sjá Búðakirkju á Snæfellsnesi. Axla-Björn var kenndur við …
Hér má sjá Búðakirkju á Snæfellsnesi. Axla-Björn var kenndur við bæinn Öxl sem er í grennd við Búðir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Björn Pétursson, betur þekktur sem Axlar-Björn, er eini íslenski raðmorðinginn sem vitað er með vissu að hafi fæðst hér á landi. Skiptar sögur eru þó um fjölda fórnarlamba hans og er því vert að spyrja: Hve marga drap hann í raun og veru?

Þeirri spurningu var svarað á vef Vísindavefsins af Má Jónssyni, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Morðin hafi verið fleiri en þrjú eða fjögur

Í svari Más kemur fram að einungis örfáar samtímaheimildir séu til um ódæðisverk Axlar-Björns, sem kenndur var við bæinn Öxl í grennd við Búðir á Snæfellsnesi, og var uppi á 16. öld. Hann var tekinn af lífi árið 1596. 

Þær heimildir gefa til kynna að hann hafi myrt fleiri en þrjá eða fjóra. Seinni tíma sögur og þjóðsögur hafa hins vegar stækkað töluna, og í þeim er talað um að fórnarlömbin hafi verið allt að 18 talsins.

Í úrskurði Alþingis frá 1596 kemur fram að hann hafi játað á sig fáheyrð morð, þó án þess að tilgreind væri nákvæm tala. Segir Már að ljóst megi þó vera af orðalagi úrskurðarins að morðin hafi verið fleiri en þrjú eða fjögur.

Talan hækkar

Næstu vitnisburðir um morð Axlar-Bjarnar voru skráðir í annála fjórum til fimm áratugum eftir atburðina og þarf því að taka þeim með fyrirvara, að því er segir í svari Más.

Sá fyrsti er frá Birni Jónssyni, sem fæddist 1574 og hafði líklega heyrt af morðunum sem ungur maður. Björn var lögréttumaður frá árinu 1616 og er talið að hann hafi tekið annál sinn um Axlar-Björn saman á fjórða áratug aldarinnar. Þar segir hann Axlar-Björn hafa myrt níu manns, þó áreiðanlega fleiri.

Næsti annáll kom frá Pétri Einarssyni, sem fæddist 1597 og varð lögréttumaður árið 1627. Talið er að hann hafi skrifað annál sinn um og eftir 1640 og segir hann þar Axlar-Björn hafa myrt 14 eða 15 manns.

Í næstu annálum, sem birtust síðari hluta 17. aldar og á 18. öld, er enn aukið við vangaveltur um fjölda fórnarlamba Axlar-Bjarnar. Þar er meðal annars nefnt að þau gætu hafa verið 18 talsins.

Í þeim annálum fer þó að gæta þjóðsagnabrags, og segir Már þá í raun „tóma vitleysu“.

„Sama gildir um þær frásagnir sem einkum er stuðst við nú á dögum og urðu til um og eftir miðja 19. öld,“ segir í svari Más og er þar vísað t.a.m. til þeirrar sögu að móðir Axlar-Björns hafi drukkið blóð úr fæti eiginmanns síns á meðgöngu og dreymt að sonur sinn yrði „óskapaskepna“.

Tekin af lífi á Laugarbrekku 

Þrátt fyrir þessar goðsagnakenndu frásagnir verður nákvæmur fjöldi fórnarlamba hans eflaust aldrei vitaður með vissu.

Talið er að hann hafi verið tekinn af lífi á Laugarbrekku, næsta þingstað við Öxl. Í annál Björns Jónssonar segir að Axlar-Björn hafi verið laminn með sleggjum, hálshöggvinn og búkur hans síðan skorinn í sundur og festur upp á stangir.

Hægt er lesa grein Más í heild sinni hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert