Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti ritara Framsóknarflokksins.
Kosið verður í embættið á miðstjórnarfundi flokksins þann 18. október. Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi ráðherra, gegndi embættinu þar til fyrir skemmstu, er hann lét af embætti og ákvað að yfirgefa hið pólitíska svið.
Áður hafa Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti flokksins í Múlaþingi og varaþingmaður, og Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, gefið kost á sér í embættið.
Lilja Rannveig er 29 ára gömul og sat á þingi fyrir Framsókn á árunum 2021-2024. Hún var í öðru sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum en hlaut ekki kjör.
Lilja Rannveig gegndi formennsku í Sambandi ungra framsóknarmanna á árunum 2018-2021 og hefur einnig setið í framkvæmdastjórn og landsstjórn flokksins. Hún leiðir nú málefnastarf flokksins.
„Það skiptir miklu máli að Framsókn sé leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum og ég brenn fyrir þeim málefnum sem Framsókn hefur lagt áherslu á síðustu ár: fjölskylduna, húsnæðisöryggi, sterkari byggðir og öflugt atvinnulíf,“ segir Lilja Rannveig í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún tilkynnir um framboðið.