Umboðsmaður barna telur Ísland ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart Barnasáttmálanum sem kveður m.a. á um að stjórnvöld eigi að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til lífs og þroska.
Í aðsendri grein í blaðinu í dag segir umboðsmaður að brýnt sé að stjórnvöld horfist í augu við þá alvarlegu stöðu sem ríkir og grípi tafarlaust til aðgerða.
Þrátt fyrir aukna áherslu stjórnvalda á málefni barna á umliðnum árum hafi staða barna versnað.
Litlar sem engar umbætur hafi átt sér stað í málefnum barna með fjölþættan vanda þrátt fyrir ítrekuð áköll úr samfélaginu. Foreldrar treysti ekki lengur kerfinu og leita út fyrir landsteinana til að koma börnum sínum í meðferð.
„Það ástand sem blasir við í málaflokknum vekur áleitnar spurningar um hvort við getum í raun og veru talið samfélagið okkar barnvænt þar sem réttindi barna og hagsmunir eru í forgangi,“ segir í aðsendri grein Salvarar Nordal, umboðsmanni barna.
Hún segir skortur á tölfræðilegum upplýsingum gera stjórnvöldum erfitt fyrir að leggja raunhæft mat á stöðuna og bregðast við með viðeigandi hætti.
„Nýverið birti Barna- og fjölskyldustofa nýjar tölur um fjölda barnaverndartilkynninga. Þar kemur fram að tilkynningum hefur fjölgað umtalsvert á síðustu misserum. Ekki fylgdi með hversu mörg börn eru að baki þessum fjölda tilkynninga, og þá ekki hvort fjölgun tilkynninga varði fámennan hóp barna og sé þar af leiðandi birtingarmynd af úrræðaleysi innan kerfisins, eða hvort börnum í vanda hafi fjölgað til muna.“
Embætti umboðsmanns óskaði í kjölfarið eftir gögnum um fjölda barnaverndarmála síðustu fimm ár en fékk þær upplýsingar að aðeins væru til slík gögn fram til ársins 2022.
Salvör vekur athygli á að íslenska ríkið eigi að veita börnum sérhæfða meðferð til að tryggja öryggi þeirra vegna meintra afbrota, alvarlegra hegðunarerfiðleika eða vímuefnaneyslu.
Neyðarástandi ríki nú í þeim málaflokki.
„Ekkert langtíma meðferðarúrræði hefur verið í boði fyrir drengi í 18 mánuði, eða frá því meðferðarheimilinu Lækjarbakka var lokað í mars 2024. Vistunartími barna á Stuðlum hefur verið styttur úr 14 dögum í 7 vegna plássleysis og aukinnar aðsóknar. Þá berast ítrekað fréttir af stroki barna og viðvarandi fíkniefnaneyslu á Stuðlum og Blönduhlíð á Vogi.“
Hún segir börn eiga það skilið að stjórnvöld virði réttindi þeirra. Mikið sé í húfi fyrir þeirra líf og þroska.
„[E]n ekki síður fyrir samfélag okkar til framtíðar.“