Fyrirhugaðar breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem boðaðar hafa verið í frumvarpsdrögum hafa vakið hörð viðbrögð Læknafélags Reykjavíkur. Ragnar Freyr Ingvarsson formaður sagði í frétt Morgunblaðsins á mánudag að ef frumvarpið verði óbreytt að lögum þá muni 115 ára samstarfi Læknafélags Reykjavíkur og ríkisins ljúka.
Alma Möller heilbrigðisráðherra gaf ekki kost á viðtali vegna málsins en svaraði spurningum blaðamanns í tölvupósti.
Ráðherra var spurð hvort rétt væri að frumvarpið gerði SÍ kleift að ákveða hvernig gjaldskrá lítur út og takmarka magn þjónustu?
„Þetta er ekki rétt. Formaður Læknafélagsins [Læknafélags Reykjavíkur] virðist hér vera að vísa til ákvæða í frumvarpinu sem ætlað er að gilda í samningsleysi, þ.e.a.s. þegar samningar hafa runnið út en ekki hefur verið samið að nýju. Í gildandi lögum um sjúkratryggingar er sú meginregla að ríkið greiðir ekki fyrir heilbrigðisþjónustu nema á grundvelli samninga. Sömu sjónarmið er að finna í lögum um opinber fjármál. Hins vegar er undantekningarheimild í núgildandi lögum um sjúkratryggingar þess efnis að í sérstökum tilfellum sé heimilt tímabundið að endurgreiða sjúkratryggðum útlagðan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu á grundvelli gjaldskrár sem SÍ gefur út. Þrátt fyrir þessa þröngu tímabundnu undanþágu hefur það gerst of oft að útlagður kostnaður sé greiddur árum saman, án þess að samningur sé fyrir hendi. Þetta hefur Ríkisendurskoðun margsinnis gagnrýnt en reynslan hefur sýnt að með því að viðhalda gjaldskrárkerfinu í mörg ár virðist ekki nægjanlegur hvati fyrir þjónustuveitendur til að semja við ríkið.“
Formaður Læknafélags Reykjavíkur (LR) segir að ef frumvarpið verði óbreytt að lögum þá muni 115 ára samstarfi LR og ríkisins ljúka og áhrifanna gæta þannig að læknar myndu halda áfram að veita þjónustu en sjúklingarnir þyrftu að leggja út fyrir reikningum og innheimta það svo sjálfir hjá Sjúkratryggingum. Í svari ráðherrans kemur fram að í frumvarpinu sé ekki gert ráð fyrir því að sjúklingar leggi sjálfir út fyrir reikningnum og innheimti sjálfir hjá SÍ. Þvert á móti geri frumvarpið ráð fyrir að einungis þeir sem hafa samning við Sjúkratryggingar innheimti reikninga til SÍ.
Ráðherra lítur ekki svo á að verið sé að setja samning við sérgreinalækna í uppnám enda sé það ekki ætlunin.
„Samningurinn er í gildi en með frumvarpinu verða heimildir SÍ til eftirlits styrktar. Í júní sl. birti Ríkisendurskoðun skýrslu um SÍ sem samnings- og eftirlitsaðila. Segir m.a. í skýrslunni að mikilvægt sé að stofnunin efli eftirlit og að heilbrigðisráðuneytið leiti leiða til að styrkja stofnunina svo að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu með árangursríkum hætti. Þá sé mikilvægt, í ljósi þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem fólgnir eru í samningum stofnunarinnar, að eftirlit hennar með framkvæmd samninga sé markvisst, bæði hvað snýr að kostnaði og gæðum.“
Í frumvarpinu er lagt til að rekstur samningsaðila sem veitir heilbrigðisþjónustu skuli vera á formi hlutafélags eða einkahlutafélags. Með breytingunni er brugðist við ábendingu Ríkisendurskoðunar, sem fram kemur í skýrslu um Sí frá því í sumar, um að það sé þörf á að auka gagnsæi um rekstur samningsaðila.
„Hlutafélagaformið veitir slíkt gagnsæi umfram önnur félagaform. Tekið skal fram að krafan um tiltekið félagaform samkvæmt ákvæðinu nær yfir alla viðsemjendur Sjúkratrygginga, ekki einungis sjálfstætt starfandi lækna.“
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram gagnrýni á að Sjúkratryggingar séu ekki nógu sterkur samningsaðili og hafi ekki næg tæki í samningnum til að sporna við aukningu á útgjöldum. Spurð hvort verið sé að bregðast við þeirri skýrslu og hvort gengið sé of langt með því að leggja til að Sjúkratryggingar geti ákveðið verðskrá, framboð þjónustu og rekstrarform viðsemjenda sinna segir í svari ráðherrans að ekki sé lagt til að SÍ geti ákveðið verðskrá viðsemjenda sinna, heldur sé lagt til að SÍ geti ákveðið verðskrá í samningsleysi.
„Á þessu er grundvallarmunur. Varðandi heimildir SÍ til að ákveða framboð þjónustu þá er eðlilegt að ríkið sem kaupandi þjónustunnar ákveði hvaða þjónustu það vill kaupa.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
