Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að stækka lóðina á Einimel 22 og selja hana til eiganda viðkomandi fasteignar, en tillaga þessa efnis var afgreidd á fundi borgarráðs sl. fimmtudag. Um er að ræða 79 fermetra landskika á sundlaugartúninu við Vesturbæjarlaug og er söluverðið ríflega 5,3 milljónir króna.
Í bókun Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem sat hjá við afgreiðslu málsins segir að með samþykkt tillögunnar haldi borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri-grænna áfram á þeirri braut að selja skika úr sundlaugartúninu við Vesturbæjarlaug til einkaaðila.
„Almenningssvæðið minnkar sem því nemur, nú um 79 fermetra. Sundlaugartúnið er vinsælt leiksvæði barna og unglinga en skortur er á grænum svæðum í Vesturbænum og hefur þeim farið fækkandi á undanförnum árum,“ segir Kjartan í bókun sinni.
„Athyglisvert er að oddviti Sósíalistaflokks Íslands skuli nú flytja tillögu um sölu á landi úr almenningsgarði til einkaaðila og fara fram á að hún verði samþykkt. Árið 2023 mótmælti sami borgarfulltrúi sams konar einkavæðingu harðlega og bókaði meðal annars að um slæmt fordæmi væri að ræða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins tók einnig einarða afstöðu gegn málinu en styður það nú. Stuðningur borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins við sölu umrædds lands til einkaaðila nú felur í sér umsnúning og vekur athygli í ljósi harðrar andstöðu þessara sömu flokka við sams konar sölu á árinu 2023,“ segir Kjartan.
Sala lóða úr sundlaugartúninu á sér nokkra forsögu en fyrir nokkrum misserum var eigendum fasteigna við Einimel seldur skiki úr túninu. Hafði eigendum fasteigna við Einimel 18-26 verið boðið að stækka lóðir sínar um 3,1 metra til suðurs í samræmi við breytt deiliskipulag. Höfðu allir eigendur þegið það boð, að undanskildum eiganda hússins númer 22. Hann óskaði þess síðan að nýta sér tilboðið sem nú hefur hlotið samþykki borgarráðs.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
