Aðsend grein úr Morgunblaðinu:
Vinstri meirihlutinn í borgarstjórn hefur framfylgt tafastefnu í samgöngumálum í 15 ár. En í þessi sömu 15 ár hafa þessir sömu meirihlutar alltaf neitað því að það sé ásetningur þeirra að hægja á umferð og tefja vegfarendur. Þau afneita í orði þeirri stefnu sem þau framfylgja í verki, vegna þess að þau vita að hún kostar samfélagið fleiri tugi milljarða á ári. Þau vita að tafastefna dregur úr skilvirkni atvinnulífsins, hækkar verð á vöru og þjónustu, lengir stöðugt í ferðum fólks milli vinnustaða og heimilis, eykur umferðarþunga og mengun, dregur úr umferðröryggi og dregur úr öryggi borgarbúa með því að tefja neyðarakstur. Samt framfylgja þau þessari stefnu.
Tafastefnunni hefur verið framfylgt með því að koma í veg fyrir að ríkisvaldið viðhaldi og byggi upp stofnbrautakerfi borgarinnar og með því að útiloka öll ný mislæg gatnamót. Henni er framfylgt með því að tala endalaust um og bíða eftir Borgarlínu, í stað þess að efla Strætó. Henni er framfylgt með því að tefja fyrir Sundabraut, með því að viðhalda handstýrðum gönguljósum á helstu stofnbraut borgarinnar og með því að svíkja skuldbindingar úr fyrri samgöngusáttmála um að snjallljósavæða borgina og breyta gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.
Nýjasta dæmið um tafastefnu borgaryfirvalda tekur svo af allan vafa um þennan tvískinnung: um þennan ásetning og afneitun. Það eru nýafstaðnar vegaframkvæmdir við Höfðabakka. Þær framkvæmdir hafa vakið mikla athygli og ekki að ástæðulausu. Þar hefur verið ráðist í umfangsmiklar breytingar sem fela í sér afnám beygjuakreina við gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls, auk þrenginga á beygjuakreinum við Höfðabakka og Stórhöfða, sem og við Höfðabakka og Dvergshöfða.
Nú eru komin fram gögn sem sýna að þessum framkvæmdum var einungis ætlað að þrengja að umferð. Þau sýna einbeittan, pólitískan ásetning um að tefja fyrir umferð tugþúsunda vegfarenda í eystri byggðum borgarinnar, einkum úr Árbæ og Grafarvogi. Í greiningu verkfræðistofunnar Cowi, sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg, kemur fram að fyrirhugaðar breytingar á gatnamótunum við Höfðabakka og Bæjarháls munu valda verulegum umferðartöfum. Samkvæmt skýrslu Cowi má búast við allt að 240 metra biðröðum síðdegis og 80 metra biðröðum að morgni á virkum dögum. Þessi niðurstaða er meginástæðan fyrir því að borgarstjórn ákvað að ráðast í þessar framkvæmdir.
Þessari skýrslu um umferðartafir var svo vandlega haldið leyndri fyrir kjörnum fulltrúum minnihlutans þegar málið var samþykkt í skipulagsráði. Það eru ólíðandi vinnubrögð að leyna kjörna fulltrúa í fjölskipuðu stjórnvaldi svo mikilvægum gögnum áður en ákvörðun er tekin um málið. Þar með er verið að sniðganga lýðræðislega stjórnarhætti og grafa undan trausti á stjórnsýslu borgarinnar. Og það er lítil huggun fólgin í því sem fram kom í frétt Morgunblaðsins, að samgöngustjóri borgarinnar hefði viðurkennt að „það hefði farið betur á því að leggja skýrsluna fram.“
Tafastefnan á rætur að rekja í órökstuddar vinstri vangaveltur. Hún hefur nú þegar kostað Reykvíkinga mörg hundruð milljarða á 15 ára tímabili. Hún er ekki einungis heimskuleg. Hún er einnig hættuleg – lífshættuleg. Þau sem skemma umferðarmannvirki og tefja fyrir vegfarendum eru jafnframt að vega að öryggi borgarbúa. Dæmi um það eru þessar nýjustu vegaframkvæmdir: Við Höfðabakka og Bæjarháls er slökkvistöð. Þar getur hver mínúta skilið milli lífs og dauða og mun áreiðanlega gera það oft í framtíðinni. Þegar flæði umferðar er vísvitandi skert á slíkum stað er verið að fórna ýtrustu öryggishagsmunum. Hér er það gert fyrir kreddur sem aldrei hafa verið rökstuddar, aldrei verið kosið um og sem borgaryfirvöldd treysta sér ekki til að standa fyrir þó það sé þeirra eigin stefna.
Það eru engin geimvísindi að greiða fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum einungis að taka öryggi, lífsgæði og hagsmuni borgarbúa fram yfir kaffihúsaspeki meirihlutans. Það hefur ekki verið gert í 15 ár. Það er löngu orðið tímabært.
Guðlaugur Þór Þórðarson er alþingismaður.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
