Lögreglunni á Vínlandsleið barst tilkynning um unglingasamkvæmi og mikinn hávaða. Reyndust þetta vera þrír vinir og komu lætin í kjölfar taps Íslands gegn Úkraínu.
Vinirnir lofuðu lögreglunni að hafa draga úr hávaðanum.
Bifreið var ekið á einstakling á rafhlaupahjóli í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar en ekki er vitað um meiðsli hans.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu í verslunarmiðstöð vegna ölvaðs einstaklings sem var búinn að læsa sig inni á salerni og neitaði að yfirgefa verslunarmiðstöðina.
Í sama umdæmi var óskað eftir aðstoð lögreglu í verslunarmiðstöð vegna þjófnaðar úr verslun.
Á svæði lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ var óskað eftir aðstoð lögreglu á skemmtistað vegna einstaklings sem réðst á dyraverði. Hann var handtekinn og er hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Í Reykjavík var óskað eftir aðstoð lögreglu í heimahús vegna ofurölvi einstaklings sem var til vandræða. Hann veittist að lögreglumönnum og er vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum víman og hægt verður að ræða við hann, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.
Tvær tilkynningar bárust sömuleiðis um þjófnað úr verslun.
Þá voru 35 ökumenn stöðvaðir fyrir að aka í göngugötu og eiga þeir von á sekt.