„Þarf að hætta að gera fyrirsjáanleg mistök“

Sagði formaðurinn í ræðu sinni að á landsþinginu gætu orðið …
Sagði formaðurinn í ræðu sinni að á landsþinginu gætu orðið mikil tímamót í stjórnmálunum ef vel væri haldið á málum því það muni öllu um Miðflokkinn. mbl.is/Ólafur Árdal

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, flutti kraftmikla ræðu á landsþingi flokksins á Hilton Reykjavík Nordica Hótelinu nú fyrir skömmu.

Áður en Sigmundur steig í pontu undir standandi lófaklappi ómaði lagið Þarfasti þjónninn með Hilmi og Humlunum en lagið fjallar um íslenska stóðhestinn, sem gæti verið vísun í merki Miðflokksins.

Sigmundur fór um víðan völl í ræðunni, sem hverfðist fyrst og fremst um þjóðrækni og heilbrigða skynsemi. Sagði hann að læra þurfi af reynslunni og hætta að gera það sem hann kallar „fyrirsjáanleg mistök“.

Í lokaorðum sínum þakkaði hann flokksmönnum fyrir að taka þátt í landsþinginu og sagði þátttöku í stjórnmálastarfi kalla á fórnir sem sannarlega væru ekki sjálfsagðar.

Boðaði mikil tímamót

Sagði formaðurinn að á landsþinginu gætu orðið mikil tímamót í stjórnmálunum ef vel væri haldið á málum því það munaði öllu um Miðflokkinn.

Sigmundur sagði lykilorðin í máli sínu, þjóðrækni annars vegar og heilbrigða skynsemi hins vegar, annars vegar lúta að því að við gerum okkur grein fyrir því hver við erum og því að styrkja löngunina til að vernda og efla þjóðina og landið sem við deilum, þ.e. þjóðræknin. Hitt, skynsemishyggjan, snúist um hvernig þessum framförum verði náð.

Formaðurinn sagði sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að það þurfi alvöru breytingar í íslenskum stjórnmálum og að þær verði ekki nema með sterkum Miðflokki, flokki sem þori að segja það sem þurfi að segja þegar aðrir kjósi að þegja.

Sagði hann heilbrigð skynsemi því miður ekki nógu almenna í nútíma stjórnmálum og að pólitík hafi í auknum mæli markast af kerfisræði, rétttrúnaði og kreddum sem gangi jafnvel svo langt að vart hafi orðið við algjöran viðskilnað við raunveruleikann.

Sigmundur Davíð sagði ekkert að því að takast á um leiðir ef markmiðin væru sameiginleg og sagði að þegar Íslendingar standi saman gegn mótlæti geti þeir áorkað ótrúlegum hlutum.

Sigmundur Davíð gengur í pontu í dag.
Sigmundur Davíð gengur í pontu í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Fyrirsjáanleg mistök

Hnýtti Sigmundur í nokkrar ákvarðanir stjórnvalda undanfarið og lýsti þeim sem fyrirsjáanlegum mistökum. Sagði hann að þegar skynsemin víki fyrir kreddum geri menn mistök. Fyrirsjáanleg mistök með opin augun þar sem litið sé fram hjá þeim staðreyndum sem blasi við:

  • Áður en fyrsta skóflustungan var tekin að nýjum Landspítala við Hringbraut máttu allir vita að það væri skynsamlegra, hagkvæmara, fljótlegra og fallegra að byggja nýjan spítala á nýjum stað.
  • Það voru fyrirsjáanleg mistök að setja ný lög um útlendinga sem veiktu landamæri Íslands.
  • Það voru fyrirsjáanleg mistök að ætla að setja reglur um hvernig fólk eigi að tjá sig og hugsa og senda alla landsmenn á innrætingarnámskeið. Það eru mistök að halda slíkum tilraunum áfram þrátt fyrir reynslu aldanna og grundvallar mikilvægi tjáningarfrelsis.
  • Það voru fyrirsjáanleg mistök að álpast inn í loftslagsstefnu Evrópusambandsins og samþykkja refsigjöld ESB vegna flugsamgangna og skipaflutninga án þess svo mikið sem að fara fram á augljósan undanþágurétt í hinu síðarnefnda.
  • Það eru fyrirsjáanleg mistök að eyða óendanlega miklum peningum skattgreiðenda í svokallaða borgarlínu sem hefur ekki annað hlutverk en að þrengja að umferðinni og réttlæta bílastæðaleysi á hinum rándýru þéttingarreitum borgarinnar.

„Við þurfum að læra af reynslunni. Það þarf að hætta að gera fyrirsjáanleg mistök. Þetta gerist og mun gerast áfram nema það verði breytingar á stjórn landsins,“ sagði Sigmundur Davíð.

Sagði hann að alls ekki megi gera það sem forsætisráðherra hafi lagt til og gerast aðili að hælisleitendapakka Evrópusambandsins. Það væru stórkostleg og fyrirsjáanleg mistök.

Áður en Sigmundur steig í pontu undir standandi lófaklappi ómaði …
Áður en Sigmundur steig í pontu undir standandi lófaklappi ómaði lagið Þarfasti þjónninn með Hilmi og Humlunum en lagið fjallar um íslenska stóðhestinn, sem gæti verið vísun í merki Miðflokksins. mbl.is/Ólafur Árdal

Skýr skilaboð

Sigmundur ræddi þá stöðu menntunar á Íslandi, heilbrigðiskerfisins, húsnæðismálin og hringrás vaxta og verðbólgu, stjórnleysi í útlendingamálum sem og tjáningarfrelsi og fullveldi áður en hann kallaði eftir nýrri ríkisstjórn með skynsemi og raunveruleikatengingu.

Það sama sagði hann um sveitarstjórnarmálin og sagði að þar þurfi að senda skýr skilaboð inn í íslensk stjórnmál – skilaboð sem ekki verði virt að vettugi.

Flokksmenn hylltu leiðtoga sinn að lokinni ræðu með standandi lófataki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert