Þetta voru verstu ár lífs míns

Ólafur Páll Gunnarsson fagnar 30 ára afmæli þáttar síns, Rokklands, …
Ólafur Páll Gunnarsson fagnar 30 ára afmæli þáttar síns, Rokklands, um þessar mundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Andrúmsloftið var áfram erfitt og undarlegt – stuð og stemning á yfirborðinu en lítið stuð í alvörunni. Ég fann vel að yfirmenn mínir fíluðu mig ekki og upplifði mig fyrir. Þetta mál var heilmikið áfall og nokkrum vikum eftir að ég sneri aftur fékk ég eiginlega bara taugaáfall. Svo ég segi það bara hreint út,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson, dagskrárgerðarmaður á Rás 2, um mál sem kom upp fyrir nokkrum árum á vinnustaðnum og hafði djúpstæð áhrif á hann.

„Ég veit að vinsælt er að tala um kulnun í starfi en ég vil ekki nota það orð. Þetta var miklu frekar taugaáfall. Mér leið mjög illa og átti orðið erfitt með að sofa. Ég fylltist efasemdum um hæfni mína í starfi og skyndilega hættu hugmyndirnar að koma, sem aldrei hafði verið vandamál. Og þær fáu sem þó komu fannst mér ómögulegar – og svo skammaðist ég mín fyrir að vera svona og reyndi að fela það fyrir næstum öllum.“

Mótmælti kröftuglega

Forsaga málsins er sú að nýr dagskrárstjóri tók við á Rás 2 og Ólafur Páll gerði athugasemdir við stefnubreytingu sem hann stóð fyrir. „Mér fannst hann strax vera á rangri leið og lét þá skoðun í ljós á fundum og mótmælti kröftuglega sumum af þeim breytingum sem ráðast átti í. Stíllinn sló ekki í gegn, ég talaði hátt. Ég skal alveg viðurkenna það og hafði ekkert umboð. Ég var óþekkur við yfirboðarann og það var ekki mikil stemning fyrir því. En mér gekk ekkert annað til en að segja mína skoðun enda ber ég hag Rásarinnar fyrir brjósti og fannst verið að skemma margt af því sem ég hafði tekið þátt í að byggja upp á löngum tíma.“

Spennan jókst og andrúmsloftið súrnaði. Dag einn eftir litla uppákomu boðaði dagskrárstjórinn Ólaf Pál á fund með sér og tveimur öðrum starfsmönnum úr framkvæmdastjórn RÚV þar sem lagður var á borð fyrir hann samningur sem hann var vinsamlegast beðinn um að skrifa undir fyrir kl. 15 sama dag. Samkvæmt samningnum var honum gert að „fara af launaskrá“ og vinna heima næstu sex mánuðina á 60% launum sem verktaki.

Ólafur Páll hefur ekki rætt þetta mál opinberlega áður og raunar ekki talað um það við neina nema örfáa vini sína. „Ég hélt þessu alveg fyrir mig enda var þetta þannig að ég upplifði mikla skömm. Mér fannst þetta niðurlægjandi og mér leið eins og utangarðsmanni. Þetta voru verstu ár lífs míns.“

Ítarlega er rætt við Ólaf Pál um þetta mál og margt fleira í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert