Persónugerving alls sem klerkastjórnin óttast

Mótmælandi heldur á lofti mynd af Mahsa Amini, sem var …
Mótmælandi heldur á lofti mynd af Mahsa Amini, sem var drepin fyrir brot á siðgæðisreglum klerkastjórnarinnar. Boniadi segir ræðu sína í dag beintengda arfleifð Amini. Samsett mynd/mbl.is/Hulda Margrét/AFP

Konur, líf og frelsi eru orð sem klerkastjórnin óttast. Ungar konur sem brjótast gegn kúgun stjórnarinnar eru þannig persónugerving ótta harðstjórnarinnar og eiga á hættu að gjalda fyrir það með lífi sínu.

Þetta segir Íranska leikkonan Nazanin Boniadi í samtali við blaðamann mbl.is. Líkt og fram hefur komið í fréttum mbl.is fæddist hún í Íran en fékk pólitískt hæli í London árið 1979, eftir að faðir hennar lenti á aftökulista fyri mótmæli sín gegn íslömsku byltingunni.

Hún hefur helgað miklum hluta af ferli sínum því að berjast fyrir mannréttindum, meðal annars undir klerkastjórninni í Íran, þar sem almenningur, einkum konur, er kúgaður.

Sem leikkona er hún hvað þekktust fyrir hlutverk sín í þáttum á borð við How I Met Your Mother, Homeland og The Lord of the Rings: The Rings of Power.

Drepin fyrir að hafa brotið gegn slæðuskyldu klerkastjórnarinnar

Klerkaveldið hefur stjórnað Íran með harðri hendi frá árinu 1979, fæðingarári Boniadi. Í seinni tíð hefur verið vaxandi óánægja með harðstjórnina og hafa mótmæli sprottið upp gegn henni á nærri því hverju ári frá 2016.

Það brutist til að mynda út mikil mótmæli árið 2022, eftir að 22 ára kúrdísk-írönsk kona, Mahsa Amini, lést í haldi írönsku siðgæðislögreglunnar. Hún var handtekin fyrir að hafa brotið gegn slæðuskyldu klerkastjórnarinnar.

Talið er að að minnsta kosti 550 manns hafi verið drepnir í mótmælunum en rúmlega 19.000 hafi verið handteknir. Stjórnvöld „náðuðu“ mótmælendur þegar það versta var afstaðið en þeir sem höfðu sig mest í frammi: mannréttindafrömuðir, fjölmiðlafólk, íþróttastjörnur og listamenn, sátu enn á bak við lás og slá í sumar og gera líklega enn.

Mótmælendur halda uppi mynd af Amini og gamla fána Íran …
Mótmælendur halda uppi mynd af Amini og gamla fána Íran á mótmælum í Istanbul 2. október 2022, tæpum mánuði eftir dauða hennar. AFP

Kona, líf og frelsi séu mótefni við eitri stjórnarinnar

Þrjú ár eru nú liðin frá morði Mahsa Amini og hefur hún á þeim tíma orðið að tákni fyrir „Woman, Life, Freedom“ hreyfinguna gegn harðstjórninni, en morðið var mikill vendipunktur fyrir hreyfinguna.

„Fólk spyr mig oft af hverju, ef svona margt fólk er drepið undir þessari stjórn, af hverju varð morðið á henni þá að tákni fyrir „Woman, Life, Freedom“ hreyfinguna,“ segir Boniadi.

Svarið við því sé að Amini hafi verið ímynd og persónugerving alls þess sem stjórnin óttast mest: konur, ungdóm og þjóðernis og trúarlega minnihlutahópa. Hún var ung kona, í þjóðernisminnihlutahópi þar sem hún var kúrdísk-írönsk, og hluti af trúarlegum minnihlutahópi sem sunni-múslimi.

Þannig séu orðin: kona, líf og frelsi, eins og mótefni við eitri stjórnarinnar.

„Eitur stjórnarinnar er kvenfyrirlitning, morð og kúgun. Þetta slagorð er meira en slagorð, þetta er ákall fyrir fall þessarar stjórnar. Fólkið í Íran veit að réttlæti getur ekki ríkt undir þessari stjórn.“

„Íranskar konur eru meðal þeirra fáu í heiminum sem hafa …
„Íranskar konur eru meðal þeirra fáu í heiminum sem hafa minni réttindi en ömmur þeirra höfðu,“ segir Boniadi. mbl.is/Hulda Margrét

Hún var ekki að reyna að gera yfirlýsingu

„Hún var bara að lifa lífi sínu. Hún var ekki að reyna að gera yfirlýsingu,“ segir Boniadi um Amini. Staðreyndin að daglegt líf og tilvera ungrar konu sé pólitísk yfirlýsing í Íran hafi opnað augu fólks.

„Þú þarft ekki einu sinni að vera virk í mótmælum. Tilvera þín er í sjálfu sér pólitísk yfirlýsing.“

Boniadi er í heimsókn hér á landi í tilefni af árlegri friðarráðstefnu Höfða, friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, og utanríkisráðuneytisins. Ráðstefnan var haldin á föstudag í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Spurð hvort ræðan hennar á föstudag sé á einhvern hátt tengd sögu eða arfleifð Amini svarar hún játandi. Að aðskilja arfleifð hennar eða „Woman, Life, Freedom“ hreyfinguna frá nokkru sem gerist í baráttunni þaðan af væri írönsku samfélagi óleikur.

Hreyfingin sýni hugrekki og þrautseigju írönsku þjóðarinnar.

Íranskar konur hafa minni réttindi en ömmur þeirra höfðu

Ræða Boniadi er titluð „Woman, Life, Freedom: Honoring Iceland’s Legacy, Standing with Iran’s Future“ og vísar í arfleifð Íslands. Spurð út í arfleifð Íslands í þessu samhengi segir hún Ísland hafa verið leiðandi í að þrýsta á rannsókn Sameinuðu þjóðanna á Íran – sem m.a. sannaði að klerkastjórnin myrti Amini í haldi, sem stjórnin hafði neitað.

Sjálfstæð alþjóðleg rannsóknarnefnd safnaði gögnum, ræddi við fjölda vitna og komst að þeirri niðurstöðu að Klerkastjórnin bæri ábyrgð á alvarlegum mannréttindabrotum og þar á meðal glæpum gegn mannkyninu.

Þá ber hún stöðu landanna tveggja árið 1979 saman. Það var árið sem Íslendingar kusu fyrsta lýðræðislega kjörna kvenkyns þjóðhöfðingjann, Vigdísi Finnbogadóttur, en þetta sama ár misstu íranskar konur réttindi sín, líkt og fram hefur komið.

„Á sama tíma og ykkur fór fram fór okkur aftur. Íranskar konur eru meðal þeirra fáu í heiminum sem hafa minni réttindi en ömmur þeirra höfðu,“ segir hún.

Konur klipptu á sér hárið á mótmælum í Madrid 1. …
Konur klipptu á sér hárið á mótmælum í Madrid 1. október 2022 til að sýna samstöðu með Amini, sem var handtekin og drepin fyrir að hafa brotið gegn slæðuskyldu klerkastjórnarinnar. Samsett mynd/AFP

Íslenskar og íranskar konur hefðu um margt að ræða

„Ég er hérna vegna þess að ég átta mig á að Ísland er leiðandi í að passa upp á jafnrétti kynjanna,“ segir Boniadi. Hún vísar í Kvennafrídaginn og segir Íslendinga vita betur en flestir að þegar konur stoppi þá stoppi landið. Íranskar konur viti að þegar konur rísa upp hreyfi þær við þjóðinni.

„Það er samvirkni þarna sem er, að ég held, ástæðan fyrir því að þið hafið verið leiðandi í ákalli um réttlæti fyrir íranskar konur,“ segir hún.

Hennar von sé sú að það haldi áfram, en að Íslendingar standi með írönsku þjóðinni í heild vegna þess að orðin líf og frelsi eigi við alla Írani.

„Þetta slagorð hefur orðið að ákalli um lýðræði og það sýnir okkur hve óaðskiljanleg réttindi kvenna og lýðræði eru.

Ef þú setur íslenska og íranska konu saman hefðu þær mikið til að ræða um vegna þess að þær skilja báðar að þjóðum fer aftur ef konur taka ekki þátt,“ segir Boniadi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert